05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Áki Jakobsson:

Ég vil ekki láta ómótmælt þeim orðum, að við hv. 2. landsk. þm. séum að hafa á móti sósíalismanum í afstöðu okkar til þessa máls.

Það er á engan hátt sósíalismi, þó að borgaralegt ríkisvald taki að sér borgaralegan atvinnurekstur. Ég vil nefna dæmi. L. um að reisa nýjar síldarverksmiðjur, sem samþ. voru á síðasta Alþ., gera ráð fyrir, að Síldarverksmiðjur ríkisins reisi 6 smáverksmiðjur. Fyrirsjáanlegt er, að þessar verksmiðjur verða vegna smæðar sinnar mjög dýrar í rekstri. Hins vegar, vegna þess að Síldarverksmiðjur ríkisins ákveða hrásíldarverðið, verður þessi dýri rekstur þeim skaðlaus, en kemur niður á sjómönnum og útgerðarmönnum, sem fá þá minna fyrir síld sína en þeir annars hefðu getað fengið. Síldarverksmiðjur einstaklinga, sem eru stærri og fullkomnari og því ódýrari í rekstri, geta þá líka grætt í skjóli Síldarverksmiðja ríkisins. Eitt dæmi um þessar smáu verksmiðjur er síldarverksmiðjan á Húsavík. Þar var byggð 400 mála verksmiðja, sem fyrirsjáanlegt var, að aldrei mundi geta staðið undir sér. Þegar þetta er fram komið, eru Síldarverksmiðjur ríkisins látnar yfirtaka þessa verksmiðju, og þar með er aukið enn á rekstrarkostnað þeirra. Það er yfirleitt varhugavert að draga atvinnurekstur í hendur ríkisins á þann hátt, að það verði beinlínis til þess að binda tækniþróun atvinnuveganna. Það er enginn sósíalismi að grípa á þann hátt inn í mekanisma kapitalismans, að eðlilegur vöxtur atvinnuveganna og framfarir í tækni séu hindruð.