06.02.1943
Efri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er búið að tala töluvert um þetta mál, og mun ég lítt lengja umr. um það. En ég vil taka fram í sambandi við það, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að varla er rétt að álykta, að allir Guðmundssynir og dætur í Selvogshreppi, sem skrifuðu undir sölumeðmælin, séu börn Guðmundar bónda í Nesi. Ég held, að hv. frsm. minni hl. mundi þykja þröngt fyrir dyrum, ef allir Pálssynir og dætur austur á Héraði stefndu til hans og lýstu hann föður sinn, og er þó Guðmundarnafnið margfalt almennara en Pálsnafnið. Það getur verið óvarlegt að draga svona ályktanir.

Þegar gengið er út frá, að af kjósendum í Selvogshreppi yfirleitt hafi 24 lagt með sölu sandgræðslulandsins, en 23 lagt á móti, þá mætti 4etla, að safnað hefði verið atkv. eftir föngum til að leggja fram fyrir Alþ. — Mér virðist, að þar sem 24 menn óska eftir, að landið verði selt, en 23 eru á móti, að hér standi maður móti manni. Virðast hér standa rök móti rökum. Nesbóndanum virðist vera nauðsynlegt að fá landið til að halda við bústofni sínum. Kunnugt er, að fyrir þessu afgirta landi liggur 3 km löng beitifjara. Þarna er mikill auður. En vegna girðingar þeirrar, sem áður hefur verið minnzt á (umhverfis hið friðaða land), er ekki hægt að koma fénu í fjöruna, og fer þar mikið fóður forgörðum. Sandgræðslustjóri hefur einnig lýst yfir því við landbn., að landið nær sjónum sé mjög gróið og væri miklu grónara en lengra frá. Ef til vill væri gerlegt að taka þann hluta þess í notkun aftur nú þegar, ef þess væri gætt að það færi ekki í örtröð, en auðvitað banna frekari beit og loka aftur landinu, ef til skemmda horfði. En oss þm. vantar nægan kunnleika á þessu.

Ég tek mikið mark á orðum sandgræðslustjóra og met hann mikils í þessu máli. Hann er hinn mætasti maður og sjálfsagt athugull í starfi sínu. En ég tel ekki rétt að slá því föstu að svo komnu máli, að Nesbóndinn fái ekki að nota þetta land. Væri það æskilegt, ef fært þykir, að taka hluta hins girta lands til notkunar — hagbeitar — ásamt fjörubeitinni.

Frsm. minni hl. landbn. sagðist ekki hafa tilhneigingu til að gera Nesbóndanum óþægindi, en lætur í ljós, að hann sé þarna töluvert kunnugur. Ég hef komið þarna aðeins tvisvar, annað skiptið í dimmviðri, en þá vorum við frsm. þar samferða, og hefur hann ekki komið í Selvog í annað skipti. Sá ég þá lítt, hvernig hagar þarna til. Ég treysti því hvorki þekkingu minni né hans um þetta atriði og er ekki fær að dæma um þetta frá því sjónarmiði.

Það getur ekki leikið á tveim tungum, að taka eigi tillit til umsagnar sandgræðslustjóra. Nú hefur hann lagt á móti því, að land þetta verði látið af hendi til Nesbóndans og tekið undan sandgræðslunni. Aftur á móti hafa báðir núv. þm. Árn. flutt frv. (annar þeirra flutti það í fyrra) um að heimila sölu landsins. Eru þeir báðir kunnugir í Selvogi. Virðist því þar standa maður gegn manni, og er því vandi fyrir deildina að skera úr, hvað réttast sé.

Þar sem hér standa trúverðugir menn, einn gegn öðrum, tel ég réttast að heimta hér beztu manna yfirsýn, þeirra er óvilhallir eru, og hafa það, sem þeim virðist farsælast, því að fáir dm. þekkja af eigin sjón, hvernig hagar til suður þar við ströndina. Þess vegna hef ég í brtt. minni lagt það undir þá stofnun, sem fulls réttlætis er að vænta frá, að velja óvilhalla menn að athuga allar aðstæður og leggja fram till. sínar fyrir ríkisstj., áður en til sölu kemur. Vænti ég þess, að þeir af dm., sem annars er ekki hlaupið of mikið kapp í kinn í þessu máli, aðhyllist tillögu mína.