12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Sigurður Guðnason:

Það eru aðeins örfá orð. — Það, sem gerði að verkum, að ég er með því að samþ. þetta frv., er ekki það, að ég álíti ekki rétt, ef hætta er fyrir dyrum vegna uppblásturs eða annars, að taka landið hiklaust af mönnum, heldur hitt, hvernig farið var að þessu. Þetta mál var rætt á fundinum, sem haldinn var í Hveragerði. Hv. frsm. minni hl. segir, að sandgræðslustjóri hafi þá ekkert ákveðið um girðingarstæðið, en eftir því, sem hann segir, var þá búið að girða fyrir vestan Selvoginn. Hver hefur haft með þá girðingu að gera? Ef það hefur verið sandgræðslustjóri, láðist honum þá, þegar hann ákvað þá girðingu, að athuga líka, hvar hin ætti að vera, fyrir fundinn í Hveragerði? Sá fundur ákvað, hvar girðingin ætti að vera, en það merkilega skeður, að það er eins og enginn vilji kannast við þann fund. Það hefði verið langtum betra að kannast við, að fundurinn hefði verið haldinn, en það hefði sýnt sig, að ákvarðanir hans hefðu ekki verið réttar. Það virðist helzt, að menn vilji nú fela það, sem búið er að gera og þingið hefur fengið staðfestingu á. Þess vegna vil ég fylgja þessu máli hiklaust, jafnvel þó að það sé skaðlegt fyrir þetta land. En svo kemur fram, að sandágangurinn á þetta land, sem um er deilt, kemur ekki að vestan, því að þar er farið að gróa. Hann kemur ekki úr heiðinni, heldur austan frá Ölfusá, og takist að hefta sandáganginn að austan, er þetta land ekki lengur í neinni hættu. Ölfusá flæðir árlega allt út undir Hraun, og allt það svæði er sandur, og meðan ekki tekst að hefta hann, er landinu ekki óhætt, og verður því að byrja á að stöðva hann. En þungamiðja þessa máls er sú, að mér finnst ekki hafa verið farið hér rétt að, og þess vegna vil ég samþ. þetta frv.