12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2573)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. 1. minni hl. (Emil Jónsson):

Það eru örfá orð til að svara hv. 1. landsk. — Hann segist munu fylgja málinu, jafnvel þó að það sé til skaða fyrir landið, svo að ég get ekki búizt við, að það þýði mikið við hann að tala um þetta.

Það er eitt, sem ég hef fundið í umr. um þetta. Það hefur verið látið liggja í ræðum, sem haldnar hafa verið um þetta mál, að framkoma sandgræðslustjóra hafi ekki verið heiðarleg. Það kann ég ekki við, því að þann mann hef ég þekkt í áratugi og veit, að varla er til heiðarlegri og samvizkusamari maður. Hann má ekki vamm sitt vita, og ég trúi ekki, að hann kannist ekki við það, sem hann hefur gert. En hann hefur ekkert sagt um, hvar hann vildi hafa girðingu landsins, og að hann hafi haft með höndum sanngræðslugirðingu vestan Selvogs áður, sannar ekkert um þetta. Því að til þess að geta séð, hvar sandgirðingin að austan ætti að liggja, þyrfti hann að hafa riðið með sjónum til þess að sjá, hvar hún ætti að vera með sjó fram. En það virðist hann ekki hafa gert.

En ég fullyrði alveg, að sandgræðslustjóri hefur ekki vísvitandi — það er áreiðanlegt — farið hér rangt með, því að það er maður, sem ekki vill vamm sitt vita í neinu. Ég segi ekki þar með, að aðrir menn geti ekki verið fullkomlega heiðarlegir menn líka.