12.03.1943
Neðri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2576)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli. Og það geri ég með sérstöku tilliti til þess, að þetta mál hefur ekki aðeins Mér á þingi, heldur einnig í blöðum og á mannfundum verið mjög mikið rætt. Og þeim mönnum, sem að þessu hafa staðið og hafa viljað styðja að framgangi þessa máls, hefur verið borið það á brýn, að þeir séu nokkurs konar landráðamenn, af því að þeir sáu að ganga í lið með þeim óheillanáttúruöflum, sem feykja sandi yfir landið og kefja með því gróður þess. Það er af því, að umr. um málið hafa farið inn á þetta stig, að ég sé ástæðu til þess að gera grein fyrir, hvers vegna ég greiði atkv. með þessu frv. Það er svo um mig eins og fleiri hv. þm. hér, að þeir eru ekki kunnugir staðháttum þarna af eigin sjón. Því að þó að þm. hafi farið þarna um, sem þeir munu reyndar fæstir hafa gert, þá geta menn' þrátt fyrir það ekki dæmt um þetta mál af eigin sjón. Og þegar þau skilyrði eru ekki fyrir hendi, liggur næst að grípa til þess, sem fyrir liggur, sem er, umsagnir kunnugra manna um staðhætti, sem maður treystir til að skýra rétt frá og hlutlaust um þau atriði, sem þarna er um að ræða. Og í þessu efni verður mér alveg sérstaklega að vitna hér til orða í grg., sem var fyrir frv., sem um þetta mál var flutt hér á vetrarþinginu 1941, að ég ætla. Það frv. hljóðandi um að selja bóndanum í Nesi landspildu þá, sem hér er um að ræða. Og flm. þess frv., sem þá var um þetta efni flutt, var hv. núv. 1. þm. Árn., sem er maður nákunnugur þarna á staðnum, og hann flytur þetta mál vitanlega af fullri sannfæringu fyrir því, að hann sé með því ekki að stofna til neinnar eyðileggingar í kjördæmi sínu og því sýslufélagi, sem hann á heima í. Það mun því mega vera óhætt að treysta því fullkomlega, að flutningur þessa máls sé byggður á fullkominni sannfæringu um það, að hér sé ekki um að ræða neitt, sem stefni til eyðileggingar, heldur er málið flutt með þeirri hugsun, sem er mjög ríkjandi, að það eigi fremur að greiða fyrir því en að spyrna á móti af því opinbera, að það fólk, sem enn er í sveitum landsins, geti átt staðfestu í sveitunum. Það kemur skýrt fram í þessari grg. hv. 1. þm. Árn., að það er þetta, sem hann hefur í huga. Og þarna eru ungir menn á staðnum, sem gjarnan vilja hafa staðfestu sína þar, en vantar nokkuð meira olnbogarúm en er, til þess að þeir geti upp byggt þessa staðfestu sina heima í sveit sinni. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, benda á það, sem hv.

1. þm. Árn. þá sagði um þetta land, sem hér er verið að tala um. Það er á þessa leið:

„Landspilda sú, sem hér er farið fram á að fá keypta, er að kalla gróin, og var það, þegar girðingin var sett, enda er nú ekki farið fram á að fá meira af landinu keypt en upphaflega átti að vera utan sandgirðingarinnar. Það er útilokað, að nokkur minnsta hætta sé á uppblæstri af þessu landi, þó að það sé ekki friðað. Landið var áður örfoka, en er nú að kalla gróið.“

Hv. 1. þm. Árn. sýndi fram á, að það hefði verið undarleg breyt., sem hefði orðið frá því, að ákveðið var um girðingarstæðið, og þar til girðingin var sett. Og það er fullkomlega ástæða til þess að taka tillit til þess, sem þar kann að hafa komið fram, og bendir margt til, að þar hafi verið viðhöfð brögð í tafli gagnvart ábúanda jarðarinnar.

Mér finnst, að þar sem í hinum tilfærðu orðum úr grg. nefnds frv. talar svo nákunnugur maður, þá sé svo skýr lýsing á þessu landi þarna fram sett, að bæði ég og aðrir, sem lítum þannig á, að það eigi að greiða fyrir staðfestu fólksins í sveitum þessa lands, getum fullkomlega forsvarað það að gera þá tilslökun, sem hér er farið fram á og getur haft það í för með sér, að ungir menn, sem þar er þröngt um, geti fengið olnbogarúm, sem geti verið afgerandi um það, hvort þeir baldi áfram að vera í sveitinni eða flytja á mölina. Því að það hefur orðið hlutskipti þeirra, sem úr sveitinni hafa farið, að flytja á mölina með þeim afleiðingum, sem það hefur haft og á enn betur eftir að koma í ljós, þegar breyt. verður á afkomuskilyrðum manna, sem á mölinni eru nú. Ég hef fullkomna sannfæringu fyrir því, að ég standi þar á réttu máli og réttmæt og eðlileg lausn þessa máls sé sú að vera með þessu frv., byggjandi þar á þeim skýru og ótvíræðu ummælum kunnugs manns, sem ég hef hér um vitnað í.

Hitt er svo, eins og kom fram hjá hv. 1. landsk. þm., að þessu landi getur eins og hverju öðru fullgrónu landi stafað hætta af sandfoki annars staðar að. En. það er mál út af fyrir sig og ekki ástæða til að snúast gegn þessu máli, sem hér liggur fyrir, þess vegna.

Það hefur verið vitnað til þess, að inn í þetta frv. hefur verið sett varúðarákvæði, þannig að skoðun eigi að fara fram á þessu landi, áður en ákveðið er, hvort það skuli selt. eða ekki, ef þessi heimild verður samþ. Ekki ætti það að spilla fyrir málinu. En frá mínu sjónarmiði, bæði með skýrskotun til þess, sem ég hef lesið hér upp eftir hv. 1. þm. Árn., og eftir öðrum sögum, sem ég hef þar um, þá liggja til þess svo gild rök að selja þessa landspildu, að þetta ákvæði hefði í sjálfu sér ekki þurft að setja inn í frv. En frá sjónarmiði þeirra manna, sent líta á þetta eins og hv. minni hl. n. gerir, þá felst í þessu ákvæði nokkurt öryggi. Þess vegna finnst mér harla undarlegt, ef þeir menn, þrátt fyrir þetta öryggisákvæði, geta ekki gengið inn á að vera með frv., eftir að búið er að gera það svo úr garði.

Það hefur verið vitnað hér til samþykktar búnaðarþings. Það er rétt, að þær falla alveg á sömu lund og viðbótarákvæðið, sem sett var í frv., að láta fram fara rannsókn, áður en landið er selt. Svo að það má segja, að samþykkt búnaðarþings sé í fullu samræmi við frv. Þess vegna brýtur það ekki í bága við samþykkt búnaðarþings, þó að það sé samþ. í þeirri mynd, sem það er nú í.

Hv. frsm. minni hl. n. kom hér inn á eitt atriði í þessu máli, sem hann taldi vera rök fyrir því, að það ætti ekki að selja þetta land og yfirleitt ekki að vera með slíkum hætti að greiða fyrir því, að haldið væri við, hvað þá að bætt væri við þá sauðfjáreign, sem er í landinu, og taldist honum svo til, að það væru einhver vandræði með að selja kjötframleiðsluna. Ég veit nú ekki betur en að á síðasta ári hafi kjötframleiðslan öll eins og hún lagði sig selzt á innanlandsmarkaði og gerði ekki betur en að hrökkva til að svara eftirspurninni. Það er ekki séð enn, hvernig fer með þá sölu á þessu ári. Hitt er vitað, að sala á kjöti innanlands hefur verið meiri, það sem liðið er frá sláturstíð á s.l. hausti, heldur en nokkurn tíma áður á sama tíma. Hins vegar verður því ekki heldur neitað, að fjárfjölgun var nokkru meiri á síðasta hausti en þar áður. Það er því óútséð um það, hvort nokkrir erfiðleikar verði með markað fyrir kjötframleiðsluna í framtíðinni. Það getur náttúrlega vel verið, að það þurfi eitthvað að flytja út af kjöti. En að framleiðslu matvæla í landinu sé þannig farið, að af þeim ástæðum sé ekki ástæða til þess að greiða götu manna til dvalar og búskapar í sveitum landsins, það er náttúrlega nokkuð langsótt í sambandi við þetta mál og sýnir litla trú á landbúnaðinum.

Það, sem hér hefur verið rætt um fjörubeit, sem þarna er útilokað, að hægt sé að nota, eins og gert hefur verið á þessu landi, er náttúrlega réttmætt að telja, að skipti miklu máli fyrir viðkomandi bónda. Því að það er vitanlegt, a`ð sá sauðfjárstofn, sem er alinn upp við sjávarsíðuna hér á landi, hann lifir ekki eingöngu á þeim gróðri, sem sprettur á landinu sjálfu. Það er ekki lítið, sem sauðfjárstofninn lifir á sjávargróðri. Svo að þetta atriði málsins er veigamikið. Og þau afnot, sem hafa mætti af fjörubeit þarna, væru alveg fundið fé, ef notast mættu, þar sem þau verðmæti, fjörubeitina, er ekki hægt að nota á annan hátt en til að framfleyta sauðfé.

Mér skilst á hv. frsm. meiri hl. n., að hann væri ekki meira en svo trúaður á það, að land þetta yrði selt, ef þessi heimild fæst, og virtist eins og hann væri að friða samvizku sína með því. Ég er fullvíss um, að þetta land verður selt, ef þessi heimild fæst, og það öllum að skaðlausu, en með því bætt afkomuskilyrði hlutaðeigandi manna og möguleikar þeirra auknir til að geta verið áfram í sveitinni, og það er sízt vanþörf á, að til þess sé stuðlað yfirleitt, að menn geti haldizt kyrrir í sveitum landsins.

Það, sem hér hefur verið talað um girðingarstæðið, þá hafa verið færðar alveg gildar sannanir fyrir því, að það sé alveg hægt að ganga frá öruggri girðingu á hinum fyrr tiltekna stað eins og þeim stað, sem hún er nú á, þannig að það út af fyrir sig er ekkert atriði í þessu máli.

Það var ekki annað en þetta, sem ég vildi segja og þá ekki í öðru skyni en því að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins með sérstöku tilliti til þeirra ummæla, sem fallið hafa um það hér á þingi og í blöðum. Það hefur komizt nokkurt kapp í málið, en ég tel allmikilsvert, að takast megi að leysa það illindalaust, og sú lausn, sem hv. 1. þm. Árn. lagði til á þinginu 1941, að höfð yrði, er að mínum dómi í alla staði eðlileg.