09.12.1942
Neðri deild: 12. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (2583)

31. mál, alþýðutryggingar

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það kann kannske ekki að vera neitt undarlegt, þó að þetta frv. komi fram, sem hv. síðasti ræðumaður var nú að lýsa, um það, að starfsmenn Sambands íslenzkra samvinnufélaga fái að vera undanþegnir frá greiðslu í Lífeyrissjóð Íslands.

Samkv. l. frá 1937 um alþýðutryggingar, 49. gr., er gert ráð fyrir, að allir þeir, sem eftir þeim l. eru tryggingarskyldir í Lífeyrissjóði Íslands, greiði vissa upphæð í lífeyrissjóðinn, eins og ákveðið er í þessari 49. gr., en þó er gert ráð fyrir, að stofnun, félag eða fyrirtæki, sem stofnað hefur fyrir starfsfólk sitt eða meðlimi eftirlaunasjóð, sem veitir sjóðfélögum meiri réttindi til elli- eða örorkulífeyris en Lífeyrissjóður Íslands veitir, geti sótt um viðurkenningu Tryggingarstofnunar ríkisins á starfsemi sjóðsins. Og þegar sú viðurkenning sé fengin, fái sérhver sjóðfélagi endurgreiðslu á lífeyrisiðgjaldi sínu, sem nemur meðaliðgjaldi til Lífeyrissjóðs Íslands fyrir sjóðfélaga og konu hans á þeim tíma og á sama stað, sem sjóðurinn starfar, þó aldrei hærri upphæð en nemur greiddum iðgjöldum þeirra. Skilyrði fyrir slíkri viðurkenningu eru þó, að sjóðurinn skuldbindi sig til að greiða af iðgjaldainnlögum hvers sjóðfélaga, sem úr sjóðnum kann að fara, jafnmikla upphæð til Lífeyrissjóðs Íslands sem hann hefur fengið frádrátt á fyrir hlutaðeigandi sjóðfélaga, ásamt vöxtum. Sá mismunur, sem þarna getur orðið á lífeyrisiðgjaldi í einstökum tilfellum og því meðaliðgjaldi, sem endurgreitt yrði úr Lífeyrissjóði Íslands, sem gjaldandinn greiðir meira í lifeyrissjóðinn en hann fær endurgreitt, rennur þannig til Lífeyrissjóðs Íslands sem skattur til trygginganna.

En 1937 var gerð breyt. á þessu, þannig að starfsmenn bankanna fengu einnig undanþágu frá því að greiða iðgjöld í Lífeyrissjóð Íslands. Ýmsir mæltu þá á móti þeirri breyt., sögðu, að hér væri rangt að farið, en fengu sínu máli ekki framgengt. Þeir sögðu, að aðrir, sem eitthvað hliðstætt stæði á um, mundu koma á eftir og fara fram á að fá undanþágur fyrir hópa manna frá því að greiða iðgjöld í Lífeyrissjóð Íslands, — eins og nú er hér komið á daginn. Nú má búast . við, ef þetta frv. verður að l., að komi hér á eftir . fjölmörg félög og stofnanir, sem fara fram á að fá slík réttindi, og allir sjá, hvað það mundi hafa í för með sér fyrir lífeyrissjóðinn. Það mundi enda með því, að til hans greiddu ekki iðgjöld nema ófélagsbundnir menn, sem hafa óvissar árstekjur. Og þá hlyti að reka að því, að Lífeyrissjóður Íslands yrði alveg óstarfhæfur til þess, sem honum er ætlað að inna af hendi.

Ég vil vænta þess, að n., sem fær málið til athugunar, yfirvegi vel allt þetta mál. Og ég get búizt víð, að það komi fram á þinginu síðar meir, að þetta atriði l. verði endurskoðað. Ég vænti, að n. leiti upplýsinga hjá Tryggingastofnun ríkisins um það, hvernig haganlegast muni vera að koma þessum málum fyrir í framtíðinni.