09.12.1942
Neðri deild: 12. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

31. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Ég get tekið undir ósk hv. 1. þm. Rang. (HelgJ) um það, að n. athugi þetta mál vel.

Eins og ég veik að í fyrri ræðu minni, hefur hæstv. Alþ. tekið upp þessa stefnu, að undanþiggja vissa hópa greiðsluskyldu til Lífeyrissjóðs Íslands, ef þeir greiða iðgjöld til sérstakra lífeyrissjóða og eru þar tryggðir.

Þarna er vitanlega um tvær leiðir að ræða. Önnur er sú að láta þessa reglu gilda áfram og láta þá, sem hafa sams konar sjóði, fá þessi réttindi. En hin er að hafa engar undanþágur, þannig að allir séu tryggðir hjá Lífeyrissjóði Íslands eða a.m.k. fái ekki undanþágu frá greiðsluskyldu til þess sjóðs, þó að þeir kunni að mynda sérstaka lífeyrissjóði. Og þá yrði líka að afnema slíkar undanþágur, sem nú er búið að veita, ekki aðeins starfsmönnum bankanna, heldur einnig starfsmönnum ríkisins. Því að það er ekki rétt að láta þá sleppa við að greiða til Lífeyrissjóðs Íslands, en láta aðra, sem eins stendur á um í þessu tilliti, borga iðgjöld þangað.

Þarna er, sem sagt, um tvær leiðir að ræða. Og ég vil leggja áherzlu á, að verði ekki breytt um stefnu í þessu efni, þá verði þeim mönnum, sem tryggðir eru hjá lífeyrissjóði Sambands íslenzkra samvinnufélaga, veitt sams konar undanþága frá greiðslu til Lífeyrissjóðs Íslands eins og starfsmenn ríkisins og starfsmenn bankanna hafa nú.