11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2586)

31. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég get skírskotað til nál., og þarf ég engu að bæta við það, sem þar er tekið fram. N. varð sammála um, að frv. þetta næði ekki fram að ganga, þar sem með því yrði raskað verulega grundvelli Lífeyrissjóðs Íslands.

Í sjálfu sér væri það kannske ekki óeðlilegt, að þeir aðilar, sem um getur í frv., fengju slíka undanþágu, en þá yrði það bara til þess að opna flóðgáttina, því að straumur um undanþágubeiðnir mundi þá koma á eftir, og yrði strax allmikil tekjurýrnun hjá lífeyrissjóðnum.

Þar sem það liggur fyrir að endurskoða þessi l., leggur n. til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá.