09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (2593)

32. mál, þingsköp Alþingis

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég býst við, að flm. ætlist til, að þetta frv. fari til allshn., þó að hann tæki það ekki fram. (JJ: Ég óskaði, að því yrði vísað til allshn.). Þá verður það að sjálfsögðu nánar athugað. En ég vil leiða athygli að því, að prentun á ræðum þm. hefur hvað eftir annað verið tekin til umr. hér á þingi, m.a. í sambandi við sparnaðarráðstafanir. Það er svo mælt fyrir í þingsköpum, að ræður skuli prentaðar, og ég held, að það sé að fara eftir anda þingskapanna og jafnvel bókstafnum að prenta ræðurnar, þó að þær séu óyfirlesnar. Fyrst talin er þörf á að prenta ræðurnar, þá á að gera ráð fyrir, að ekkert sé undan fellt og engu breytt, er haggi meiningunni. En ég tek undir það með hv. flm., að það væri sjálfsagt bezt, að ræðurnar væru yfirfarnar og færðar sem næst í sitt upprunalega horf. Með þeim vinnubrögðum, sem hér tíðkast, verður aldrei fullkomlega tryggt, að ræðurnar séu orðréttar, en það eru til fullkomin verkfæri, sem taka ræður upp orðrétt. Ekki þarf annað en „diktafón“ til þess. Annars vil ég segja það, viðvíkjandi því, sem hv. flm. sagði, að álit á þm. lækki við það, að prentaðar séu óyfirlesnar ræður þeirra, að þá geti það vel verið. En við skulum ekki vera blindir fyrir því, að það getur líka orðið til að lækka álit þm., hve mikið ræður þeirra eru leiðréttar. Hv. flm. minntist á einn fyrri þm., sem þekktur var fyrir góðan frágang á ræðum sínum í þingtíðindum. En ég heyrði um hann og fleiri ganga þær sögur, að það væri ekki hægt að marka það, sem þar stæði. Ræðurnar yrðu allt annað en þær voru upphaflega. Það má einu gilda, hvort um fullkomið eða ófullkomið handrit er að ræða, ef ræðunum er mikið breytt. Þá verða ræðurnar ekki heimild um það, sem þm. sagði, heldur um það, sem hann vildi hafa sagt. Ég hef heyrt menn segja, að ræður ættu að vera orðréttar, og það mætti athuga, hvort ekki væri ástæða til að banna þm. að leiðrétta ræður sínar, nema um augljósar villur væri að ræða, eigi þeir að standa við það, sem þeir hafa sagt, en ekki bara það, sem þeir vildu hafa sagt. Það er meira að segja vert að athuga það, hvort þm., sem flutt hafa lélegar ræður eða vita sig hafa haft vondan málstað, geta ekki notað sér, að ræður þeirra verði ekki prentaðar, nema þær séu yfirlesnar.

Það mun eiga að vera nokkurs konar Salómonsdómur, sem hv. þm. S.-Þ. vill beita gegn þeim alþm., sem ekki lesa ræður sínar. En hér er þess að gæta, að það snertir ekki aðeins réttindi þm., hvernig ræðurnar eru prentaðar, heldur og réttindi kjósenda. Og mér finnst meira að segja, að hér sé ekki einungis um réttindi þm. að ræða, heldur og skyldur þeirra gagnvart kjósendum. Kjósendur eiga heimtingu á að sjá nokkurn veginn, hvað það var, sem þm. þeirra sagði. Ef ræðan er felld úr þingtíðindum, vegna þess að hún er óyfirlesin, þá eiga þeir þess ekki kost.

Kjósendur eiga ekki tök á þm. í heilt kjörtímabil, vilji þeir eitthvað vanda um við hann. Við næstu kosningar þar á eftir er hann svo frjálsari til að láta í veðri vaka, hvað hann hefur sagt, heldur en ef ræður hans væru prentaðar, þótt óyfirlesnar væru.

Ég tek undir það með hv. flm., að það, sem mestu máli skiptir, er að finna aðferð til þess að tryggja, að ræðurnar séu sem réttastar, þegar þær birtast á prenti; hvort sem það er tryggt með vél eða á einhvern annan hátt, þá er það gott. Annars má benda á það í þessu sambandi, að það má gera tilraun til þess að fyrirbyggja ófullkominn frágang á ræðunum með því að láta þingskrifara ganga undir próf, eins og einu sinni tíðkaðist. Með því móti ætti að vera nokkurn veginn öruggt, að til starfsins veldust aðeins þeir, sem væru færir um að leysa það nokkurn veginn sómasamlega af hendi. En fullkomnar heimildir um það, sem þm. hefur sagt, verður ræðan aldrei, nema hún sé tekin niður með vélum, eins og gert er viða erlendis.

Það er þá þetta, sem ég vildi aðeins vekja athygli á, að það sé athugað, að refsingin komi ekki niður á þeim saklausu, þ.e. þeim, sem vildu sjá í Alþt., hvað þm. hafa sagt.