16.12.1942
Efri deild: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

57. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Það er nú í annað skipti á þessu ári, að ég flyt þetta frv. í þessari d. — Ég þarf ekki að skýra það mikið, það er gert í grg. þess. Það, sem hér er um að ræða, er gerbreyting á elli- og örorkutryggingum. — Flestir eru nú orðnir sammála um, að þessum þætti trygginganna verði að breyta. Allir vita, að Lífeyrissjóður getur ekki náð tilgangi sínum. Í honum eru nú um 5 milljónir króna eftir 6 ár, og til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sínar eftir 50 ár, þá þurfa að vera í honum fleiri hundruð milljónir króna. Því verður að fara aðrar leiðir, eins og fyrr hefur verið að víkið. Og því tel ég eðlilegt, að kaflinn um ellitryggingar verði strax látinn koma til framkvæmda og gamalmennum og öryrkjum gefinn fastur lífeyrir, og tekna til þessara ráðstafana aflað hjá bæjum og ríki.

Hitt er svo annað mál, að það geta verið skiptar skoðanir um framkvæmd málsins í ýmsum atriðum, t.d. um tekjustofn sjóðsins. Samkv. ákvæðum þessa frv., þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum grunnlífeyri, þá mundi maður hér í Rvík fá útborgað tæp 4 þús. krónur og hjón um 6 þús. á ári, miðað við núverandi vísitölu.

Þetta er að vísu krappur lífeyrir. Þegar þess e r gætt, að þetta er þó mikil hækkun frá fyrirmælunum í þessum kafla Tryggingalaganna og frá þeim styrk, sem nú er veittur, þá þótti ekki rétt að ákveða lífeyrinn hærri í frv.

Samkv. þessu frv. skal afla tekna bæði hjá bæjum og ríki að viðbættum tekjum sjóðsins.

Nú mun sumum þykja eðlilegt, að einfaldlega sé ákveðið, að hið opinbera greiði allt það, sem iðgjöldin hrökkva ekki fyrir, hvorki meira né minna. Það má vel vera, fyrirkomulagið er mér ekkert kappsmál. En hugsunin eftir mínu fyrirkomulagi er nokkuð önnur.

Það má telja, að áraskipti verði að gjöldum og einnig tekjum. Því tel ég heppilegra að safna í varasjóð, þegar vel árar, til að mæta meiri útgjaldaárum. Að öðrum kosti yrðu útgjöld eða framlög þess opinbera mest þegar gjaldþol manna er minnst.

Samkv. tekjuöflunarleiðum frv. gætu allt að 70% gamalmenna og öryrkja yfir 67 ára fengið greiddan fullan lífeyri, — upphæð teknanna mundi svara til þess. Ég hef borið þetta undir sérfræðing.

Til að byrja með er svo það fé, sem til er í lífeyrissjóði, sem varafé. Að ári liðnu yrði svo reynsla fengin, og mætti þá endurskoða tekjuhliðina, ef þessi leið verður farin.

Að endingu vil ég svo leggja til, að máli þessu verði vísað til allshn., í von um, að hún veiti því skjótari afgreiðslu en síðast.