16.12.1942
Efri deild: 15. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2601)

57. mál, alþýðutryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Ég er sammála hv. flm. um það, að flest bendir til, að þetta fyrirkomulag í alþýðutryggingunum, sem hér er rætt um, sé ekki til frambúðar. Ég hygg það ljóst vera, að torvelt sé að tryggja nægilega sjóðsmyndun til að geta innt af hendi jafnmikinn hluta af ellilaunum og ætlunin er. Auk þess er sjóðsmyndun 50–60 ár fram í tímann allvafasöm vegna breytinga á verðgildi peninganna.

Hitt er ekki rétt hjá hv. flm., að sjóðurinn þurfi að vera orðinn fleiri hundruð milljónir króna. Það er í fyrsta lagi af því, að skuldbindingar sjóðsins eru ekki ákveðnar í l. Lífeyrisupphæðina átti að ákveða innan 12 ára frá setningu laganna í samræmi við fengna reynslu í þessum efnum. Hitt er rétt, að það er ómögulegt að gizka á, hve miklu fé þurfti að safna í þennan sjóð, miðað t.d. við gildi peninganna í dag.

Ég er flm. sammála í aðalatriðum, að það sé rétt að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem hér er lögfest.

Um alþýðutryggingar eru aðallega uppi tvær stefnur. Önnur er sú, sem fylgt hefur verið hér frá byrjun, að hafa þær sem persónulegastar, að menn greiði visst fé og fái visst í staðinn. Þetta fyrirkomulag hefur að mestu verið framkvæmt í Svíþjóð t.d.

Hins vegar hefur hin leiðin verið farin í Danmörku og Englandi, að það opinbera hafi meiri íhlutun og afskipti um fjárframlög, og ætla ég, að reynslan bendi okkur eftir þeirri leið.

Hins vegar þarf að gera víðtækar breyt. á þessu frv., ef það á að ná samþykki. Ég hygg það víst, að sjóðurinn geti aðeins mætt litlum skuldbindingum í framtíðinni. Um síðustu áramót voru í honum 4,5 millj. króna + 1,5 millj. iðgjald þessa árs. Auk þess nema gömlu ellitryggingasjóðirnir um 11/2 millj. króna, svo að þetta gerir samtals ca. 71/2 millj. króna. Um tekjur næsta árs fer eftir því, hvaða vísitala gildir 1. april 1943, þar eð lífeyrissjóðsgjöldin eru þá reiknuð út fyrir hvert líðandi ár. En sjóðnum er ætlað að bera allan kostnað af útborgun ellilauna og örorkulífeyris, að frádregnúm þeim 1/4 hluta, sem bæjar- eða sveitarsjóður og ríkissjóður greiða hvor um sig.

Nú mun vera um 10 þús. öryrkjar og gamalmenni, sem koma til greina við greiðslu úr sjóðnum. Af þeim hafa fengið ellilaun eða örorkubætur sér til framfæris eða glaðnings kringum 61/2 þús. manns síðari árin. Af því er ljóst, að það þarf mikið fé til þess að greiða þær upphæðir, sem frv. ætlast til, með fullri verðlagsuppbót. Í því sambandi er það fyrst að athuga, að þær frádráttarreglur, sem nú eru í alþýðutryggingal., þyrftu að endurskoðast í sambandi við þetta.

Í öðru lagi er það, að ég hygg, að áætlun hv. flm. um það, að tekjur sjóðsins, eins og þær mundu vera eftir frv. og núgildandi l., mundu nægja til þess að borga upphæð, sem svaraði til þess, að allt að 70% allra öryrkja og gamalmenna 67 ára og eldri fengju greiddan fullan lífeyri, sé alveg fjarri lagi. Mér skilst, að eftir frv. mætti áætla meðallífeyri sennilega um 1200 kr., sem gæti þó orðið eitthvað minna, segjum 1000 kr. fyrir hvern mann, sem þar kemur til greina. Sé reiknað með 7 þús. manns, eða 70% þeirra, sem til greina kæmu, þá eru þar komnar um 7 millj. kr., og þar við bætist svo verðlagsuppbót, sem er nú rúml. 170% af grunnlaunum. Það eru h.u.b. 19 millj. kr., og helmingur af því skilst mér, að ætti að koma frá sveitarfélögum og ríkissjóði, en helmingur frá Lífeyrissjóði Íslands. Tekjur sjóðsins ná sennilega 2 millj. kr., og eignir hans eru kringum 7 millj. kr. Væri því þessi áætlun rétt, mundi sennilega það fara langt til á einu ári í greiðslur samkv. þessu frv., sem sjóðurinn fær í tekjur á næsta ári, og það, sem safnazt hefur í sjóðinn. En hér kemur svo til greina, að það er ekki hægt að gera sér grein fyrir því án mikilla athugana, hvernig frádráttarreglurnar mundu verka, þannig að þessir útreikningar mínir eru aðeins byggðir á áætlun hv. flm. um, að 70%, eða um 7000 manns, fái sem svarar fullum lífeyri.

Ef þess vegna verður hallazt að því að samþ. þetta frv., verður óhjákvæmilega að sjá Lífeyrissjóði fyrir einhverjum auknum tekjum til þess að mæta þeim helmingi af þessum greiðslum, sem honum er ætlað að standa undir. Ég vil benda hv. allshn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, á þetta, og mér væri ánægja að láta hana hafa þær aðrar upplýsingar í málinu, sem ég get í té látið. En ég endurtek það, sem ég sagði fyrr um þetta, að ég álít fullkomlega tímabært að taka það til athugunar, hvort ekki er ástæða til að breyta fyrirkomulagi um greiðslu ellitrygginganna þannig, að upp verði tekin greiðsla fullra ellilauna eða lífeyris og horfið frá því að mynda stóran tryggingasjóð með iðgjaldagreiðslum, þar sem reiknað er með vöxtunum sem mjög mikilsverðum tekjulið.