28.01.1943
Efri deild: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

57. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á þessum mistökum.

Efni þessa frv. er að breyta allverulega til um fyrirkomulag á elli- og örorkutryggingum. Ætlazt er til, að IV. kafli l. um elli- og örorkutryggingar frá 1937 komi þegar til framkvæmda og ákveðinn verði fastur lífeyrir handa gamalmennum og öryrkjum, en kostnaður af þessu verði borinn uppi af ríki og bæjar- eða sveitarfélögum. Ég gerði ráð fyrir við 1. umr., að tekjur samkv. frv. mundu nægja til að greiða allt að 70% af öllum gamalmennum á landinu fullan lífeyri. Þetta var byggt á skýrslum um úthlutun ellilauna og örorkubóta árið 1940. Að vísu eru ekki til nákvæmar tölur um þetta, en hér getur þó varla skakkað miklu. Nú hefur Tryggingastofnun ríkisins fengið þetta til athugunar og útreiknings, og byggist útreikningur hennar á skýrslum um úthlutun elli- og örorkubóta fyrir 1942. Samkv. þeim mundu tekjur samkv. frv. hrökkva til að greiða 62,2% af öllum gamalmennum fullan lífeyri. Hins vegar dregur tryggingastofnunin í efa, að þessar tekjur mundu nægja til þess, að lífeyrissjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar sínar samkv. frv. Mér finnst þetta þó ósennilegt, þar sem aðeins 62% gamalmenna mundu fá nokkur ellilaun og aðeins rúmlega helmingur þeirra styrk, sem nokkru munar. En úr þessu getur reynslan ein skorið.

Það er sameiginleg skoðun allshn., að rétt sé að færa ellilaun og örorkubætur í meginatriðum í það form, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég hefði að vísu talið æskilegt, að hægt væri að ganga frá þessu nú þegar og fá nokkra reynslu af framkvæmd þessara atriða, áður en tryggingarlöggjöfin öll er tekin til endurskoðunar. Hins vegar varð samkomulag um það í allshn. að afgreiða frv. með rökst. dagskrá í trausti þess, að slík endurskoðun yrði látin fara fram þegar á þessu ári. Þess er þá vænzt, að hæstv. ríkisstj. láti hefja það verk og sjái um, að því verði lokið svo snemma, að hægt sé að afgreiða ný l. um alþýðutryggingar þegar á þessu ári. Ég get sætt mig við þessa afgreiðslu og legg því til, að hin rökst. dagskrá verði samþ.