05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ófriðurinn hefur fært okkur mörg ný verkefni í verzlunarmálum sem öðrum málum, og það hafa verið settar á fót á undanförnum árum nokkrar stofnanir, sem hafa fengið verkefni þessi með höndum jafnóðum og þau hafa skapazt. Þegar ný verkefni hefur borið að höndum, hafa þau verið falin nýjum aðila, af því að manni hefur fundizt, að hver n. hefði fangið fullt af verkefnum þeim, sem fyrir voru. Reynslan hefur þó sýnt ótvírætt undanfarið, að þessu fyrirkomulagi hefur fylgt sá galli, að ekki hefur verið nógu mikið heildarsamræmi í starfi þessara aðila. Að vísu hefur ráðuneytið haft yfirumsjón með starfi þessara stofnana, en vegna þess að störf þeirra hafa verið með mismunandi hætti, hefur vantað samræmið. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að verðlagsn. var ekki skipuð af ríkisstj., heldur voru tilnefndir í hana menn af ýmsum stofnunum, sem höfðu mismunandi sjónarmið og niðurstaðan hefur orðið sú, að mönnum hefur orðið ljóst, að aukins samræmis er þörf. Þetta frv. virðist mér að meginatriðinu til fullnægja þessum þörfum. Hv. fjmrh. talaði um, að sameina ætti undir eina stofnun það starf, sem þrjár aðalstofnanir hafa haft með höndum, og enn fremur að bæta við hana þeim verkefnum, sem tíminn kynni að sýna, að væru nauðsynleg. Hún á að taka að sér þau störf, sem gjaldeyris- og verðlagsn. hefur haft með höndum, skömmtunarskrifstofa ríkisins og dómnefnd í verðlagsmálum. Þessari einu stofnun er ætlað að koma í staðinn fyrir þær.

Þó að verið hafi nokkur íhlutun um skiprúm, þá fer því fjarri, að með því skipulagi, sem verið hefur, hafi þar náðst í botn, því að það er ekki hægt nema með því að fylgjast nánar með því, sem hefur verið gert, enda þótt eimskipafélagið hafi haft góða samvinnu við stjórnina í þessum efnum. Ég tel því frv. stefna í rétta átt. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að þegar búið verður að draga öll þessi stórkostlegu verkefni saman á einn stað og fimm mönnum ætlað að hafa þar úrskurðarvald, þá hlýtur starf þessara fimm manna að verða meira og minna yfirstj., og þeir verða svo og svo mikið að treysta á þá deildarstjóra eða starfsmenn, sem þessir fimm menn setja til að fylgjast með hverri starfsgrein. Það er augljóst mál, að það veltur allt að því eins mikið á þeim for stöðumönnum, sem verða settir til að starfa við hverja grein fyrir sig og undirbúa málin fyrir yfirstj., og það kemur til með að velta gífurlega mikið á, hvernig tekst með val á þeim mönnum og hvernig viðhorf þeirra manna er, sem til þeirra hluta eru valdir, hvort þeir hafa áhuga fyrir að líta á þau mál, sem þeim eru falin, frá almennu sjónarmiði, eða það verða menn, sem hafa hliðarsjónarmið, sem geta eyðilagt þann árangur, sem annars gæti náðst af þessu. Þetta er gífurlega stórt atriði, og því sjáum við, að þetta fyrirkomulag getur orðið til mikilla bóta, ef vel tekst um yfirstjórn stofnunarinnar og vel tekst um val þeirra manna, sem eiga að stjórna deildunum, annars verður verr farið en heima setið. Vegna þess, hvers eðlis þessi breyt. er, finnst mér hér stefnt í rétta átt, en það þarf vitanlega að athuga mjög gaumgæfilega, hvernig skipa skuli yfirstj. slíkrar stofnunar sem þessarar, því að það hefur aldrei verið sett stofnun á fót hér á landi, sem hefur verið fengið annað eins vald og þessi stofnun fær, ef þetta frv. verður samþ. lítið eða ekkert breytt. Það verður því að athuga skipun yfirstj. ákaflega vel, og ég fyrir mitt leyti vil sérstaklega beina því til hæstv. ríkisstj., til þess að samvinna hennar við Alþ. geti haldizt sem bezt, að það er ákaflega áríðandi að veita þessu meginatriði sérstakan gaum við meðferð málsins, því að það væri ákaflega slæmt, ef þessi skipulagsbreyt., sem í sjálfu sér gæti orðið til stórmikils gagns, næði ekki tilgangi sínum eða misheppnaðist fyrir það, að látið væri undir höfuð leggjast að hafa samvinnu milli stj. og Alþ. í þessu efni eins og er alveg nauðsynlegt.

En þó að verksvið þessarar yfir stj. sé geysilega víðtækt samkv. þessu frv., þá finnst mér samt rétt að athuga, hvort ástandið sé ekki þannig, að ástæða væri til að gefa henni jafnvel enn víðtækara vald en hér er gert, en það má athuga nánar í n.

Áður en málið fer í n., vil ég vekja athygli á einu atriði, sem ég sakna úr frv. Gert er ráð fyrir, að þessi yfirstj. hafi með höndum yfirstj. viðskiptamálanna, en þó er ekki minnzt á útflutninginn í sambandi við frv. Eins og menn víta, þá er nú starfandi útflutningsn., eða réttara sagt, það er til útflutningsn., en rás viðburðanna hefur orðið sú að undanförnu, að hlutverk hennar er nú orðið sáralítið eða ekkert. N. hefur hins vegar setið, og ég tel, að þegar gengið er að því að samræma þessi mál og gera þau einfaldari í framkvæmd, tel ég sjálfsagt, að útflutningsn. geti líka hætt störfum, en hún hefur starfað mjög lítið, en í reyndinni hefur það orðið viðskiptan. og samninganefndir, sem hafa fjallað um samningana við önnur ríki, en hafa fyrir rás viðburðanna fengið að mestu leyti það verkefni, sem útflutningsn. var ætlað. Ég tel því rétt að athuga, hvort ekki sé rétt að fella þetta líka undir viðskiptaráðið.

Í sambandi við þetta frv. ræddi hæstv. ráðh. nokkuð horfur í viðskiptamálunum yfirleitt. Ég fyrir mitt leyti vil lýsa ánægju minni yfir því, að hann tók fram, að hann vildi ekki horfa aðgerðarlaus á, að innflutningurinn færi fram úr útflutningnum, hann taldi það vott um byrjun á sjúkdómi, og er enginn vafi, að það er rétt. Það verður að veita því sérstaka athygli, að það verður að finna ráð við því, meðan við höfum verulegar gjaldeyrisinneignir bak við okkur, því að annars geta þær orðið upp étnar, fyrr en okkur varir.

Ég tók eftir, að hæstv. ráðh. sagði, að sá skipakostur, sem við ættum nú von á, mundi ekki geta flutt inn nema helming af ársinnflutningi okkar, að ég hygg fyrir utan þær þungavörur, sem frá Englandi kunna að koma. Mig langar til að fá nánari upplýsingar um það hjá hæstv. ráðh., hvernig horfurnar eru í þessum málum yfirleitt. Í samningunum við Bandaríkin er svo ákveðið, að þau sjái okkur fyrir skipakosti til að flytja til okkar nauðsynlegar vörur að því leyti, sem skipakostur okkar hrekkur ekki til. Þetta loforð er skýlaust og gefið af frjálsum vilja, og meðan ég þekkti til þessara mála, var það svo, að skipakostur var látinn, fullkomlega að því er mönnum fannst, til að uppfylla þetta samningsatriði. Nú hef ég orðið þess var upp á síðkastið, að Bandaríkin hafa dregið verulega að sér hendina í seinni tíð, og ummæli hæstv. ráðh. gefa mér tilefni til að líta svo á, að þeir muni enn þá ætla sér að draga stórlega að sér hendina. Ég vil beina því til hæstv. stj., að hún athugi vel samninginn um hervernd landsins og þá skuldbindingu, sem Bandaríkin tóku á sig um flutninga til landsins, og verði reynt að fá slegið föstum einhverjum ákveðnum skilningi um það atriði, ef það þykir ekki nógu skýrt, hverjar séu þær nauðsynjar, sem flytja eigi til landsins, til þess að samningurinn teljist haldinn af hálfu Bandaríkjanna. Mér er fyllilega ljóst, hvaða erfiðleika Bandaríkin hafa við að stríða sjálf í öllum greinum eins og þeirra aðstaða er, en það er einu sinni svo, að þessi samningur var gerður, þegar þeir tóku að sér hervernd landsins, og þeir gengust þá inn á þetta góðfúslega og án aths., og þá munar óverulega um að láta Íslendingum í té þann skipakost, sem þeir þurfa til að flytja nauðsynjar sínar inn í landið.

Mér hefði fundizt rétt, að hæstv. ráðh. hefði látið Alþ. vita nánar en kom fram í ræðu hans, hve mikinn skipakost við höfum nú frá Bandaríkjunum í förum og hvaða horfur væru þar. Um það leyti, sem ég þekkti til síðast, þá létu þeir á tímaleigu þrjú skip og skutu aukaskipum inn í til viðbótar, eftir því sem ástæður kröfðu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta.