07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

73. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Honum fannst vera mótsögn í því, að ég sagði, að ég mundi beygja mig fyrir þeim till., sem kæmu frá búnaðarfélaginu og það næði samkomulagi um. Ég hef lýst þessu yfir áður, og það er vegna þess, að ég álít eðlilegt, að búnaðarfélagið ráði mestu um þetta. Þetta mál hefur verið rætt á búnaðarþingi, og það sýndi sig, að næstum allir búnaðarþingsfulltrúarnir voru sammála um það að reyna að setja ákvæði í l., sem fyrirbyggðu það, að hægt væri að selja jarðirnar uppsprengdu verði. Bændur eru það viðsýnir menn, að þeir skilja það vel, að það er ekki hægt að reka búskap á jörðum, sem hafa verið seldar uppsprengdu verði. Annars væri fróðlegt að heyra þann búnaðarþingsfulltrúa, sem sæti á hér í d. og er flm. þessa frv., segja eitthvað um þetta atriði og hver skoðun ríkti á búnaðarþingi um það.