05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2627)

73. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég vil aðeins svara hv. þm. Str. fáum orðum, þótt ræða hans væri mér tilefni þess að flytja langt mál.

Orð hans eru ekki í sambandi við frv. Það er eins og austrið svari, þegar ég spyr vestrið. Hann játar, að jarðaverðið er nú komið upp úr öllu valdi, þrátt fyrir 17. gr. með sín skýlausu ákvæði.

Um það, að lækka beri jarðaverðið, hugsa ég, að við getum orðið sammála. En það verður ekki með stuðningi 17. gr.

Hann sagði, að bændur í Dalasýslu vildu selja ríkinu jarðir sínar. Hér fer hann ekki með rétt mál, og ætti hann ekki að rugla þannig staðreyndum.

En í þessu sambandi má geta þess, að viða hefur verið lagt kapp á, að bændur seldu jarðirnar og talið, að þá mundi þeirra hagur betri. En reynslan hefur sýnt hið gagnstæða, því að leiguliðar þessir hafa alls ekki óbundnar hendur á við sjálfseignarbændur og hagur þeirra eigi betri. Og mér finnst hafa verið ofurlítið farið í kringum kjarna málsins af hv. þm. Str. Ef við færum að bollaleggja eitthvað um þetta, sem hann var að tala um, þá hyrfi 17. gr. af sjálfu sér. En því þá að spyrna á móti því nú? Það er oft heppilegra að rífa áður en byrjað er að byggja, til þess að koma fyrir undirstöðu, og ég held, að svo sé í þessu tilliti, að heppilegast sé að losa sig sem fyrst við rústir 17. gr., koma þeim burt og fara svo að leggja undirstöðu undir nýja byggingu.