05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

73. mál, jarðræktarlög

Eiríkur Einarsson:

Það var ekki ætlun mín að taka hér til máls, þó að ég sé meðflm. að þessu frv. En með því að hér er gert ráð fyrir, að þetta mál verði rætt ekki aðeins hér á hæstv. Alþ., heldur og á búnaðarþingi, sem bráðlega fer í hönd, þá vildi ég aðeins gera grein fyrir einu atriði, sem mér finnst, að ekki hafi komið hér nógu skýrt fram.

Þeir, sem um þetta mál hafa deilt hér, virðast sammála um, að það sé sérstaklega æskilegur hlutur, að verðlag jarða í landinu lækki. Ég vil ekki, þegar farið verður að ræða þetta á búnaðarþingi, sé litið svo á, að allir, sem standa að þessu frv., séu á þeirri skoðun, að það sé einhver kínalífselixír fyrir landbúnaðinn að fá jarðaverðið sem mest lækkað. Ég held, að það sé lítt rjúfanlegt viðskiptalögmál, að verðlag á jörðum í landinu — þ.e.a.s. meðan þær ganga á frjálsan hátt kaupum og sölum eins og hvert annað það, er viðskipti eru með, fari eftir því, hve góðan hlut álitið er, að verið sé að verzla með, og verðið fari eftir eftirspurninni, eins og maður orðar það venjulega. Ég hygg, að því meira sem að því kveður, að þeir, sem við landbúnað eru, geti ekki séð sér farborða án sérstakra styrkveitinga úr ríkissjóði, þá muni þessir góðu menn, sem vilja lækka verðlag á jörðum, fremur hitta á óskastundina. Ef svo vel vill verða, að landbúnaðurinn verður sjálfbjarga til frambúðar og það þykir eftirsóknarverð staða að vera bóndi á góðri jörð, þá geri ég ráð fyrir, ef verðlagið á jörðum verður ekki allt lögbundið, í mótsetningu við annað, sem gengur kaupum og sölum, þá hafi það hækkandi áhrif á verðlag jarðanna í landinu. Og ég vildi gjarnan, að sú hækkun ætti fyrir okkur að liggja. Hitt er svo allt annað mál, sem ég óska ekki eftir, að jarðir hækki óhæfilega í verði og með tilliti til óeðlilegra „spekúlationa“ í viðskiptalífinu. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þdm. séu á einu máli um það, að þessi verðhækkun sé ekki hættlegur hlutur, sem af eðlilegum ástæðum verður, öðru nær. En til þess að koma í veg fyrir óeðlilega hækkun á verði jarða, held ég, að þurfi að fyrirbyggja glæfra í kaupum og sölum á jörðum (Rödd af þingbekkjum: Að bankastjórarnir fái ekki um of að gína yfir þeim.), og verður að gera það með sérstakri lagasetningu út af fyrir sig. Ég held, að sú lagasetning væri, ef sett yrði, mjög í rétta átt og mætti teljast hin nauðsynlegasta.

Viðkomandi því, að því hefur af ýmsum verið haldið fram, að selja ætti helzt allar jarðir við fasteignamatsverði, þá er þess að geta, að til þess að slíkt geti verið sanngjarnt, þarf að vera sem bezt samræmi í matinu eftir raunverulegu verðmæti jarðanna. En um það má náttúrlega deila, hvort þessi eða hin jörðin eigi að vera dálítið hærra eða lægra metin. Og matið er framið að nokkru leyti sem framkvæmd nauðsynlegrar undirstöðu undir skattálagningu. Þar er um skattamál að ræða fyrst og fremst.

Um 17. gr. vil ég ekki fjölyrða meira. Ég gerði það með glöðu geði að vera meðflm. þessa frv., enda þótt ég hafi ekki látið mig það mál miklu skipta yfirleitt, af því að skoðun mín í því efni er sú, að ég tel heillavænlegast, að annaðhvort eigi landsmenn jarðir sínar sjálfir eða ekki. Annaðhvort séu þeir óðalsbændur sem mest, hver á sinni jörð, með sem minnstu mixi milli sín og ríkissjóðs, eða þá, ef það reynist ótiltækilegt, að ríkið sé sá almenni hreini landsdrottinn á þann hátt, að bændur geti verið öruggir um að geta búið á bú jörðum sínum, en ekki sé verið um leið með þetta ákvæði um fylgifé og alla fyrirhöfn og „appendix“, kannske viðkomandi annarri hverri jörð á landinu, til ergelsis fyrir hvern sýslumann á landinu vegna þess, hvernig þetta eigi að færast í veðmálabækur o.þ.h.

Þótt talið sé, að búið sé að bera þetta mál fram 6–7 sinnum án árangurs, er það nú komið í það horf, að fylgjendur 17. gr. eru farnir að ljá máls á því, að þessu þurfi að breyta, enda þótt skaplyndi þeirra sumra sé því enn til fyrirstöðu.

Að síðustu vil ég enn lýsa mig andvígan þeirri skoðun, að viðskiptaverð á jarðeignum eigi að vera sem allra lægst. Ég sé t.d. ekki, hvaða sanngirni er í því, meðan engar hömlur eru á því, að húseigendur í kaupstöðum selji hús háu verði, að bóndi, sem búinn er að slíta kröftum sínum á jörð, en verður síðan að selja hana, e.t.v. af því að börn hans fást ekki til að vera í sveit, megi ekki fá fyrir hana gott verð.