16.12.1942
Neðri deild: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2636)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Finnur Jónsson:

Það er ákaflega átakandi fyrirbæn, sem hv. 1. þm. Skagf. hefur hér farið með, og mætti mikið vera, sé hún á rökum reist, ef Alþ. yrði ekki við þeirri bæn. En svo er um þetta frv., að það er gamall kunningi og hefur fengið á hverju þingi nú um alllangt skeið rækilega athugun, en ekki náð fram að ganga, af því að svo hefur verið litið á, að það mundi ákaflega mikið spilla atvinnumöguleikum fjölda landsmanna, ef það væri samþykkt. Það hefur verið svo um ýmsar fyrrverandi fiskveiðasamþykktir, sem hafa verið gerðar, að þær hafa verið reistar á þeim rökum, að þær væru nauðsynlegar til að bjarga framfærslumöguleikum manna á þessum eða þessum stað, en þær hafa bara sjaldan náð tilgangi sínum. Ég vil minna hv. þm. Skagf. á, að það var til í lögum þar til fyrir fáum árum heimild fyrir sýslun. að banna herpinótaveiði á innfjörðum. Þessi lög voru sett til þess að varðveita lífsbjörg smábátaútvegsins, og heimildin var notuð í Steingrímsfirði og í Skagafirði, að mig minnir. En það sýndi sig, að lög þessi voru sett að ástæðulausu. Þau voru síðan brotin í 10 –20 ár, og menn voru flestir búnir að gleyma þessum samþykktum, þar til loks að l. voru afnumin sem ónýt og tilgangslaus. Ef á að ræða um þetta frv., sem nú er komið fram, þá vil ég benda á, að það nær ekki þeim tilgangi að friða uppeldisstöðvar nytjafiska, þar sem gert er ráð fyrir, að dragnótaveiðar séu leyfðar yfir hásumarið og hrygningartíma kola við Norðurland.

Á síðustu árum hafa sprottið hér upp hraðfrystihús, er byggja tilveru sína meira eða minna á dragnótaveiðunum. Ef á að eyðileggja þær milljónir, sem lagðar hafa verið í hraðfrystihúsin, og svipta það fólk, sem þar vinnur, atvinnu, þá er sjálfsagt að samþ. þetta frv. Ef ætlunin er hins vegar að láta þróun sjávarútvegsins halda áfram, þá á að fella það. Ég held, að þetta frv. sé borið fram af því, að menn við þessa firði, sem sérstaklega er minnzt á, eru ekki búnir að læra dragnótaveiði. Ég man eftir því, þegar áskorun kom frá smábátaeigendum við Eyjafjörð, að bönnuð yrði dragnótaveiði innan við Hrísey bátum, sem væru 5 smálestir eða meira. Ástæðan var sú, að trillubátaeigendur á Akureyri höfðu tekið upp dragnótaveiði, og hefur hún nú verið stunduð í Eyjafirði í nokkur ár með góðum árangri bæði fyrir smábátaeigendur og þá, sem vinna við hraðfrystihúsin. Ég held því, að það vær í gagnlegra, að hv. þm. Skagf. beitti sér fyrir því, að Skagfirðingar sjálfir tækju upp dragnótaveiði og notuðu sér sjálfir Skagafjörð til þessara veiða heldur en að láta aðra nota sér þá veiði, sem þar er kostur á. Þá yrði atvinnuvegum Skagfirðinga betur borgið en með því að banna dragnótaveiði. Ástæðan til að friða sjóinn umhverfis land er nú minni en nokkru sinni fyrr. Sjórinn utan landhelgi er nú sjálffriðaður að mestu leyti fyrir botnvörpuveiðum, en venjulega stafar af þeim miklu meiri hætta en dragnótaveiðum.

Annað mál er það, að dragnótaveiði ætti að reka af meiri gætni en nú er gert. Það ætti ekki að leyfa að landa kola undir vissri stærð. Kolinn er lífseigur, og ef höfð væri sú regla að sleppa öllum smákola, þá væri lítil hætta á, að gengið yrði á kolastofninn. Sú breyting, sem orðið hefur á fiskveiðunum vegna ófriðarins, er þannig, að nytjafiskur er nú miklu fremur friðaður en við gætum friðað hann á venjulegum tímum með samþykkt þessa frv. Með því myndum við aðeins spilla atvinnuvegum landsmanna.