05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Finnur Jónsson:

Ég hjó eftir því hjá hæstv. fjmrh., að hann teldi sig ekki geta horft á það, að fé það, sem varið væri fyrir innfluttar vörur, færi fram úr því, er inn kæmi fyrir útfluttan varning. Nú er það vitað, að innflutningur hefur verið mikill að undanförnu og farið allmjög fram úr útflutningnum, en þó hefur ekki verið sýnt fram á það, að greiðslujöfnuður við útlönd hafi versnað á síðustu tímum. Okkur er nauðsyn að endurnýja skipastól landsins, reisa hús og kaupa til landsins margs konar vörur til framleiðsluþarfa. Ég mundi ekki sjá neitt saknæmt í því, þó að þeim duldu greiðslum, sem inn koma fyrir annað en það, sem út er flutt, yrði varið til þessara hluta, jafnvel þótt nokkuð gengi á innstæður landsmanna erlendis, meðan ekki væru fluttar inn skranvörur og lífi sjómanna teflt í hættu til þess að flytja til landsins óþarfavarning, skinnavöru og slíkt. Nú væri fróðlegt að heyra, hvort hæstv. ráðh. hefur meint það bókstaflega, sem hann sagði um það, að útflutningur og innflutningur yrði að standast á, eða hvort hann ætlast til, að fé það, sem kemur frá herstjórninni, eigi að koma þar til greina. Eins væri gott að fá að vita, hve miklu þetta fé muni nema, og hvort verzlunarjöfnuðurinn muni hafa verið óhagstæður, ef það er tekið til greina.