01.03.1943
Neðri deild: 68. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2642)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Garðar Þorsteinsson:

Ég vildi ekki láta þetta frv. fara gegnum d. án þess að láta í ljós undrun mína yfir því, hvernig hv. sjútvn. tekur á málinu. N. fær málið snemma á þingi, það liggur hjá henni í þrjá mánuði, og loks afgreiðir hún það á þann hátt að vísa því frá með rökst. dagskrá í trausti þess, að mþn., sem skipa á, en er óskipuð enn, taki það til meðferðar. Mér virðist ljóst, að fyrir hv. n. muni hafa vakað að drepa málið á einhvern hátt. Þetta mál hefur legið hér fyrir áður. Ég man ekki betur en málið væri samþ. út úr Nd. á næstsíðasta aðalþ., en dagaði þá uppi í Ed. Hv. allshn. vill vísa málinu til mþn. í sjávarútvegsmálum. Ég efast nú um, að hún hafi athugað þetta mál betur en þm. þeirra kjördæma, sem hér eiga hlut að máli. Það var auðheyrt, hverrar skoðunar hv. frsm. sjútvn. var. Hann fer eftir útgerðarmönnum í Hrísey og Ólafsfirði, en gleymir því, að flestallir útgerðarmenn og sjómenn um allan Eyjafjörð vilja, að þessi l. séu sett. Og ef þessi tilvonandi mþn. setur sig ekki rækilegar inn í málið en hv. frsm. sjútvn. hefur gert, verður það sízt til bóta að vísa málinu til hennar. Ég mun að minnsta kosti greiða atkv. gegn þessari rökst. dagskrá, því að hún er til þess eins að bregða fæti fyrir málið. Það er nú ekki nema hálfur annar mánuður, þar til næsta þing kemur saman, og býst ég við, að þessi mþn. hafi annað að starfa þá. Þá er eins gott bara hreinlega að fella málið á Alþ. eins og að svæfa það á þann hátt. Það hefur verið meirihlutafylgi fyrir þessu máli í hv. Nd. Ég skal ekki segja, hvort svo er nú, því að kosningar hafa fram farið síðan málið lá hér fyrir síðast. Og það er engum neinn greiði gerður með því að svæfa málið, heldur öllum ógreiði.