01.03.1943
Neðri deild: 68. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2645)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Þetta mál, sem frv. er um á þskj. 70, er gamall kunningi hér í hæstv. Alþ. þann tíma, sem ég hef átt sæti á þingi. Á mörgum þingum hefur það verið flutt hér fram í frv.-formi, og um það hafa verið mjög skiptar skoðanir. Mér hefur fundizt, að talsverður hiti lægi á bak við vörn og sókn í þessu máli og það komi fram enn. En þetta mál hefur aldrei verið flutt í því formi sem nú, þegar aðeins nokkur hluti landsins er tekinn og lagt til, að lokað verði fyrir dragnótaveiðar í landhelgi aðeins meðfram þeim landshluta. Og ég álít, að með þessu sé í raun og veru tilraun gerð til þess að loka með öllu fyrir dragnótaveiðar fyrir Norðurlandi, því að þótt opið eigi að vera fyrir þeim aðeins um síldartímann, þá er það ekki nema eins og hálfgerður hrekkur, þar sem vitað er, að menn, sem vor og haust stunda dragnótaveiðar, mundu ekki leggja út í þann rekstur um síldartímann. Þess vegna má telja, að hér sé gerð tilraun til að loka Norðurlandi alveg fyrir dragnótaveiði. Og þó að nokkrir menn úr Hrísey og víðar við Eyjafjörð hafi óskað eftir, að dragnótaveiði væri á þennan hátt bönnuð, þá er þar með ekki nema hálfsögð sagan. Það hafa líka komið mótmæli gegn samþykkt þessa frv. frá Akureyri og einkum frá smáútvegsmönnum þar. Þetta er mál, sem snertir einmitt mjög þá allra smæstu útgerðarmenn í kjördæmi sínu, sem hafa með styrk þess opinbera, jafnvel bæjarsjóðs, brotizt í því að komast í samlög um kaup og útgerð á 3–5 smálesta bátum. Það eru þar milli 10 og 20 bátar, sem gerðir hafa verið út frá Akureyri til þessa á dragnótaveiðar, og að þeim standa nokkrir tugir manna. Á krepputímanum var einmitt allálitleg leið til að bjarga þeim smæstu á þennan hátt. Við gátum með þeirri hjálp, sem ég gat um, varið þá sveit á þennan hátt. Og það kæmi ákaflega hart niður á þeim, ef þeir mættu ekki nota þessar smáu dragnætur, sem engum hafa verið til meins við Eyjafjörð, því að þær eru aðeins notaðar á grunnmiðum, en ekki djúpmiðum. Hitt er annað mál, að e.t.v. flestir, sem smáútveg reka á dýpri miðum, eru á móti því, að stórir bátar veiði á sömu svæðum og þeir með mjög löngum dragnótum, því að þeir sópa nærri eins og togarar djúpsævið. En hér er ekki í þessu frv. gerður neinn greinarmunur á, hvar veiðar eru stundaðar, hvort það er á djúpsævi eða þar, sem grynnra er, heldur er það „prinsipið“ að banna allar dragnótaveiðar fyrir Norðurlandi, nema stuttan tíma yfir sumarið. Hér er ekki tekið til allt landið, og hvers vegna á ekki að verja önnur svæði en þessi fyrir dragnótaveiðinni? Og hvað ætli hæstv. forseti (JJós) mundi segja um Vestmannaeyjar og að loka fyrir dragnótaveiðar þar?

Hv. þm. Borgf. er nú gömul kempa á þessu svíði. Hvað ætli hann segði um að þurrka út allar dragnótaveiðar fyrir Akranesi eða jafnvel í öllum Faxaflóa? Og hvað ætli kjósendur hans segðu um það? Það má kalla hlálegt, að hér er hafizt handa um að reyna að fá því framgengt að banna dragnótaveiðar fyrir Norðurlandi, en þetta er ekki látið taka til annarra staða. Það er ekki sanngirni í þessu, ef hér er að ræða um virkilegt velferðarmál allrar þjóðarinnar.

Menn hafa hnotið um afgreiðslu þessarar hv. d. á þessu máli, að afgreiða það með rökst. dagskrá, ekki vegna þess, að sú leið sé svo óvanaleg, heldur er hér talað um, að það sé fóstur í móðurkviði, þegar um er að ræða mþn., sem búið er að samþ., að eigi að kjósa. Ég get vel fellt mig við þessa afgreiðslu. Þetta mál þarf meiri undirbúnings við. Og ég beini því til hv. flm., sem flestir eru þm. úr Norðlendingafjórðungi, að ég mótmæli þessu frv., þó að ég heyri þeim fjórðungi til sem þm.

Fyrir þremur árum, er ég átti sæti í sjútvn., reyndi ég að miðla málum hjá þeim, sem sendu áskoranir til sjútvn., með því að leggja til að takmarka dragnótaveiðar í landhelgi, en ekki að loka henni alveg. Þá vildu þeir, sem áskoranir sendu, að smærri bátarnir, 3–5 smálesta bátar, fengju að veiða með dragnótum fyrir Norðurlandi. Þessu er nú alveg gengið fram hjá, en á þessu byggðist áskorunin upprunalega. Nú er sagt, að þeir vilji ákveðnir lokun, og jafnvel svo sterkt að orði kveðið, að aðeins fáir menn í Eyjafirði mótmæli því. En þeir eru margir á Akureyri, í Hrísey og í Ólafsfirði, sem mótmæla því. Ég álít, með tilvísun til þess, sem ég hef nú sagt, að málið þurfi miklu meiri undirbúnings og upplýsinga við, og vil því, að því sé vísað frá með rökst. dagskrá.