02.03.1943
Neðri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2647)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. — Það er nú í rauninni nýlunda, að ég kveðji mér hljóðs í sjávarútvegsmálum, en af því að það komu þannig löguð ummæli fram við umr. hér í gær, að ég taldi ekki ástæðu til að láta þeim ómótmælt, ætla ég að segja hér nokkur orð.

Það er augljóst mál, að hér er um hagsmunatogstreitu að ræða. Því var haldið fram hér í gær, að verið væri að taka mikilsverðan feng frá stóru bátunum og spilla aðstöðu þeirra. Þetta játa ég fyllilega, en þá verður líka að gæta þess, að það er um fleiri báta og fleiri menn að ræða en þá, sem eiga stóru bátana og aðallega stunda þessar dragnótaveiðar. Á fjörðunum norðanlands og meðfram ströndunum er fjöldi af fólki, sem hefur mikinn hluta sinnar lífsafkomu af því að stunda veiði á smábátum, og sá stóri munur er á þessari útgerð og útgerð stórbátanna, að það verður að einskorða sig við þessa veiði og getur ekki notað annað. Þetta fólk á afkomu sína og sinna undir því, að það geti með hinum ódýru tækjum sínum náð fiskinum úr sjónum. Aftur er það með stóru bátana, sem sumir virðast bera sérstaka umhyggju fyrir, að þeir hafa betri aðstöðu til þess að stunda aðra vinnu. Flestir þeirra geta farið — og fara — á síldveiðar og hafa þar miklar tekjur, sem hinum er algerlega fráskákað. Þegar á að meta þessa hluti, sem ekki er hægt að komast hjá að líta á, er augljóst, að það óréttlátasta, sem hægt er að gera gagnvart þeim mönnum, sem smáu bátana eiga, er það að gera þeim ókleift að auka afla sinn á þeim miðum, sem þeir ná til. Við viljum, að aðstaða þessara tveggja þátttakenda í útgerðinni verði metin réttilega, og ég er ekki í vafa um, að rétt er, að þeir, sem geta aflað sér tekna á marga aðra vegu, verði að víkja fyrir hinum, sem eingöngu verða að bjargast á smábátaútvegi.