02.03.1943
Neðri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál. Ég vil vekja athygli á dálitilli hugvekju, sem birtist í bæjarblöðunum í dag, og það er gott fyrir þá, sem standa fastast að því, að öll hugsanleg veiðitæki séu notuð til rányrkju, að athuga hana og sjá, að það er viðar en hér á Íslandi, sem hafa opnazt augu manna fyrir þeim háska, sem fiskveiðunum stafar í framtíðinni af gegndarlausum botnvörpu- og dragnótaveiðum. Blöðin í morgun fluttu frásögn um, að nýlega hefur verið haldinn fundur vísindamanna í London, þar sem forstjóri fiskirannsóknarstofu landbúnaðar- og fiskveiðaráðuneytisins hefur haldið eftirtektarverða ræðu, en á fundinum voru mættir fulltrúar útgerðarinnar, bæði enskir, norskir og íslenzkir. Í dag er svo birtur dálítill útdráttur úr ræðu þessa forstjóra. Hann minnist fyrst á þá miklu fjölgun, sem varð á fiski á miðunum eftir stríðið 1914–18, og hvað skeð hefur síðan, og hann gerir ráð fyrir, að það muni sækja í sama horfið nú í þessari styrjöld. Hann vekur athygli á þeim lærdómi, sem af þessu megi draga, og að nú eigi að gjalda varhuga við og láta ekki það sama henda aftur, að skefjalausar veiðar séu látnar minnka fiskistofninn og jafnvel ríða honum að fullu, Það er haft eftir þessum forstjóra, að eftir stríðið megi gera ráð fyrir, að fiskimergðin hafi aukizt aftur. Það yrði að gera ráðstafanir til að vernda stofninn. Fyrir ófriðinn hafi fyrstu sporin verið stigin um möskvastærð og alþjóðasamþykkt verið gerð um það atriði. Þetta væri nauðsynlegt og rétt að ganga lengra á þeirri braut, en það þyrfti að gera frekari ráðstafanir um takmarkanir á veiðunum.

Fyrir Íslendinga, sem eiga jafnmikið undir fiskveiðunum og raun ber vitni um, er þetta ekki síður lærdómsríkt en fyrir Englendinga, því að enda þótt fiskveiðar séu mikill þáttur í þeirra lífi, þá er það ekkert sambærilegt við það, sem er hjá okkur. Það ber vel í veiði nú, þegar þetta mál er á dagskrá, að menn geti gert sér grein fyrir, hvað er að gerast, og ég vænti, að menn láti ekki sem vind um eyrun þjóta aðvaranir slíkra fræðimanna, sem eru vel rökstuddar af okkar eigin reynslu. Mesta höfuðnauðsynin er að friða alveg þær stöðvar fyrir botnvörpu- og dragnótaveiðum, sem ungviði fiskjarins heldur sig mest á. Það þarf ekki að fela í sér, að not af fiskveiðunum séu skert, því að á sömu svæðum er hægt að stunda fiskveiðar með öðrum veiðarfærum, lóða-, þorskanetja- og handfæraveiðar. Það er auðvelt að gera þær umbætur á þessu frv., sem að gagni kæmu.