02.03.1943
Neðri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2653)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Sigurður Þórðarson:

Herra forseti. — Hv. þm. Ísaf. hafði ýmislegt að athuga við frv., eins og vænta mátti. Hann gerði ekki mikið úr umsögnum vísindamanna um þetta mál. Má vera. Ég er ekki fiskifræðingur, en hv. þm. Ísaf. er það ekki heldur. En ég vil benda á, að þegar niðurstöðum þeirra, sem þekkingu hafa á þessum málum, og hag sjómanna ber saman, þá ætti það að vera jafnþungt á metaskálunum og álit hans. Hann heldur því fram, að hrygningarsvæði séu ekki fyrir Norðurlandi. Það er óupplýst mál, en golþorskurinn veiðist fyrir Norðurlandi, og ég hygg, að fiskifræðingar haldi því fram, að þorskurinn sé farinn að hrygna þar síðan fór að hlýna í sjó. Um hitt þarf ekki að ræða, hvort banna eigi dragnótaveiði á innfjörðum. Það er staðreynd og ómótmælanlegt, að það er ekki til að hindra, að meiri afli berist á land að banna dragnótaveiðar, heldur öfugt. Það er ekki til bóta, að örfáir bátar geti gúknað yfir veiðinni, en smábátaeigendur verði að hætta.

Þá minntist hv. þm. Ísaf. á það, að það væri fáheyrð fjarstæða að láta sér detta í hug að láta sýslun. í Eyjaf jarðarsýslu ráða því, hvort banna ætti eða leyfa dragnótaveiði í Eyjafirði. Ég get vel fellt mig við það, að sýslun. bæði Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu réðu því í félagi, en það var tiltekin sú fyrrnefnda, af því að útgerð er meiri Eyjafjarðarsýslumegin. En ég gæti hugsað mér, að báðar gætu komið sér. saman um, að dragnótaveiði væri takmörkuð.

Akureyri hefur ekki verið tekin með í frv., vegna þess að hún á ekki land að Eyjafirði nema Pollinum —, og það er sanngjarnt, að þeir ráði yfirfirðingum, sem land eiga að honum, enda hefur það ætíð verið viðurkennt frá því í fyrndinni, að hver ætti veiðirétt fyrir sínu landi. Það er því ekki sýnt, að hér sé neinn voði á ferð, og við treystum því, að hv. Alþ. láti þetta mál ná fram að ganga, því að það þolir enga bið.