26.01.1943
Neðri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

45. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Skúli Guðmundsson:

Frv. um jöfnunarsjóð aflahluta hefur nú þrisvar sinnum verið flutt á Alþ. Í fyrsta skipti, er það kom fram, var gert ráð fyrir skyldutryggingu, eins og nú, en í Nd. var gerð á því sú breyt., að tryggingarnar væru gerðar frjálsar. Í það skipti stöðvaðist frv. í Ed. – Í annað sinn var frv. flutt þannig, að tryggingarnar voru frjálsar en ekki skyldutryggingar. Þá var frv. afgr. með rökst. dagskrá, þar sem ríkisstj. var falið að rannsaka og undirbúa málið með aðstoð tryggingarfróðra manna. Sú áskorun bar ekki árangur. Atvmrh. lét enga rannsókn fara fram, eða a.m.k. hefur þess ekki orðið vart. Ekkert varð því úr framkvæmdum, og er þetta mál nú jafnlítið undirbúið og er það kom fyrst fram. Vegna þess að ekki hefur farið fram nauðsynleg athugun á þessu máli þrátt fyrir óskir Alþ. um það, tel ég, að fyrst eigi að fara þá leið að hafa tryggingarnar frjálsar, vitanlega má breyta þeim í skyldutryggingar, ef þurfa þykir síðar. Því er það, að ég leyfi mér að flytja brtt. á þskj. 242.

Fyrsta breyt. er við 1. gr. frv. og er á þá leyfð, að útgerðarmenn, er gera út skip til fiskiveiða með hlutarráðningu, geta orðið þátttakendur í þessum umrædda tryggingarsjóði, en það sé ekki skylda þeirra. Hv. þm. Borgf. hefur flutt brtt. á þskj. 270 við þessa till. mína og gert grein fyrir henni. Samkv. till. hans á það að vera á valdi skipshafnarinnar að ákveða þátttökuna, þannig að ef meiri hl. er með því, þá taki þeir sinn þátt í þessari sjóðsmyndun. — Ég tel þessa till. til bóta og get fallizt á að samþ. hana. — því er haldið fram af flm. frv., að mikill áhugi sé meðal útgerðarmanna að fá setta löggjöf um það, er frv. þetta fjallar um. Ég lít svo á, að þessari ósk þeirra sé alveg fullnægt, þó að brtt. okkar, hv. þm. Borgf. og mín, séu samþ., því að eftir sem áður er þeim greiður aðgangur að taka þátt í tryggingunum, þótt ekki séu þeir til þess skyldaðir.

Önnur breyt., sem ég legg til, að gerð verði, á þskj. 242, er aðeins orðalagsbreyt. til leiðréttingar. Hv. 6. landsk. flytur og sams konar brtt. á þskj. 258.

Þriðja brtt. mín á þskj. 242 er um það, að um leið og l. þessi öðlast gildi, falli úr gildi ákvæði um framlög bæjar- og hreppsfélaga í tryggingarsjóð hlutaútgerðarfélaga. — Ef frv. þetta verður samþ., tel ég, að sú ástæða að láta bæjar- og hreppsfélög leggja fram fé í þessu skyni, sé í burtu fallin og því sjálfsagt að nema þau lagafyrirmæli, er að því lúta, úr gildi.

Hv. 6. landsk. leggur til með brtt. sinni á þskj. 258, að gjaldið til jöfnunarsjóðsins verði 3/4% af verðmæti aflans og sé ekki dreginn frá sameiginlegur kostnaður, áður en gjaldið er á lagt. Eftir þessu kæmi það ekki til ágreinings í þessu sambandi, hvað væri sameiginlegur kostnaður. En ég vil benda hv. 6. landsk. á, að þar sem hann fer fram á það með brtt. á þskj. 258, að þessu verði breytt þannig, verður hann og til samræmis að óska breytingar á 3.. gr., að því leyti sem hún snertir þetta atriði.