26.01.1943
Neðri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (2674)

45. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Gísli Guðmundsson:

Við 2. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir því, er mér þótti ástæða til að segja um undirbúning þessa máls. Ég hafði í sjútvn. áskilið mér rétt til að koma með brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Við 2. umr. flutti ég ekki neina brtt., en hef hins vegar leyft mér við þessa umr. málsins að koma fram með brtt. á þskj. 246.

Þessar brtt. eru ærið margar talsins, flestar þeirra eru þó um eitt og sama efnið, þ.e.a.s., þær fela í sér breyt. á nafni sjóðsins, og er lagt til, að nafninu sé breytt á öllum stöðum, er það kemur fyrir í frv. Samkv. frv. er sjóðurinn kallaður Jöfnunarsjóður aflahluta, en eftir því sem ég legg til, á hann að heita Hlutatryggingarsjóður. Þar sem sjóði þessum er ætlað að trygga aflahluti, er það að mínum dómi réttast, að hann beri nafnið Hlutatryggingarsjóður.

Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að nafnið á sjóðnum skiptir ekki miklu máli, en hér er um að ræða tryggingarstarfsemi og því langréttast, að sjóðurinn dragi þar af nafn sitt Þetta má m.a. marka af því, að ákveðið er í frv., eins og það liggur fyrir, að fela framkvæmd sjóðsins tryggingarstofnun ríkisins. Þessum sjóði er ekki ætlað að gera aflahluti jafna, heldur er honum ætlað að tryggja, að alltaf verði um nokkurn aflahlut að ræða. Því er það, að mér finnst þetta nafn, er ég legg til, að tekið verði upp á sjóðnum, ná betur þeirri hugsun, sem á bak við þessa sjóðmyndun liggur, og þeim tilgangi, sem honum er ætlað að ná.

Í 5. brtt. minni á þskj. 246 er gert ráð fyrir að breyta 5. gr. frv., gr., sem fjallar um stjórn sjóðsins. Hún er um það, hvernig form. sjóðstjórnar sé valinn, sömuleiðis um það, að starfstími stjórnarinnar sé 2 ár, en ekki 3, þar eð ég tel það nægilegan tíma, a.m.k. til að byrja með. Enn fremur legg ég til, að ráðh. ákveði tryggingarstofnun ríkisins þóknun fyrir daglegar framkvæmdir og reikningshald sjóðsins.

Í 7. brtt. minni er svo gert ráð fyrir að breyta 7. gr. frv., þannig, að það sé fram tekið, að ráðh. gefi út reglugerð sjóðsins. Eins legg ég til, að ýmislegt annað komi inn í 7. gr. frv., sem mér finnst sjálfsagt að hafa í l., og yfirleitt er það að segja um þetta frv., að mér finnst það ekki vera nægilega“ nákvæmt, og að æskilegt hefði verið, að hin einstöku atriði varðandi þessa sjóðsmyndun hefðu betur komið í ljós í frv. frá löggjafans hálfu. Þá mælir brtt. svo fyrir, að framkvæmd laganna um greiðslur til sjóðsins taki ekki gildi fyrr en reglugerð hefur verið út gefin.

Ég hef borið fram á þskj. 271 brtt. við þessa brtt., en hún á aðeins að vera til taks, ef samþ. yrði till. frá hv. þm., sem gæti orðið til þess, að fyrri till. mín gæti ekki komið til atkvæða. En reynist ekki þörf á henni, mun ég taka hana aftur. —

Hér liggja till. frá ýmsum þm., en ég sé ekki ástæðu til að ræða þær, því að afstaða mín til þeirra mun koma fram við atkvgr., þegar þar að kemur.