18.12.1942
Efri deild: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

66. mál, skólasetur á Reykhólum

Hermann Jónasson:

Jörðin Reykhólar var keypt í þeim tilgangi, að hún yrði notuð fyrir skólasetur eða í aðrar opinberar þarfir, og þess vegna leiðir af sjálfu sér, að ekki er hægt að hefja framkvæmdir í stórum stíl á jörðinni. Það er rétt, að hún er í niðurníðslu, en hún bíður eftir því að vera notuð í þeim tilgangi, sem til var ætlazt, þegar kaup ríkissjóðs fóru fram. Ég held, að það komi greinilega fram í frv., að þetta var á allan hátt eðlilegt, hvernig jörðinni var ráðstafað. Ég hafði, áður en ég lét af embætti, kynnt mér, að það var vilji fyrir því í Vestfirðingafjórðungi, að jörðin yrði notuð í opinberar þarfir, sumir vildu fyrir prestssetur, aðrir barnaskóla, þriðju bændaskóla, fjórðu skóla í áttina við hina héraðsskólana. Það var svo ástatt, þegar jörðin var keypt, að mikið var gert að byggingum í sveitum landsins og eins mikið og ríkið hafði fjármagn til, svo að af vöntun á fé hefði verið erfitt að ráðast í þetta á þeim tíma, sbr. Reykjarhól í Skagaf., þar sem teikningar hafa legið fyrir í mörg ár, en ekki þótt fært vegna fjárskorts að hefja framkvæmdir. Þann stað hefur þó ríkið átt í 10–20 ár, og sterkt félag stendur að málinu með ákveðnar till. Á því má sjá, að málinu er enn skammt komið þarna fyrir vestan, enda var auðheyrt á ræðu hv. flm., að málið er ekki komið á framkvæmdastigið, og af þeim ástæðum verður hv. þm. að flytja svo óvenjulegt frv.

Ég vil leiðrétta það, sem hv. þm Barð. sagði um skiptaráðandann, sem fór með þetta mál, Berg Jónsson.

Ég hygg, að það sé ofsagt, að viðkomandi skiptaráðandi, sem er núverandi sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu, hafi farið út fyrir sitt verksvið, er hann gaf samþykki til sölu þessarar jarðar. Ríkið hafði aflað sér heimildir til þess að kaupa þessa jörð, og mér er vel kunnugt, að það voru fulltrúar í Stjórnarráðinu, sem gengu í gegnum það fyrir hönd þess. Það er áreiðanlega ofsagt, að skiptaráðandi hafi farið út fyrir sitt umboð í þessu máli. Ég álít, að það hafi verið skylda hans, eða að minnsta kosti, að það hafi verið rétt af honum að láta ríkið vita, hvað hvíldi á jörðinni. Jörðin bíður nú eftir því, að Vestfirðingar ákveði, hvað þeir vilja gera við hana í framtíðinni. Vegna þess að hugmyndir manna um það, hvernig eigi að fara með jörðina, eru enn ekki komnar í fast horf, hefur ekkert verið gert í málinu til þessa. Það, sem þyrfti að gera, er að stofna félag, eins og í Skagafirði, sem vinnur að þessum málum og ákveður, hvernig æskilegast muni að haga þessu. Síðan gæti ríkisstj. látið n. ræða við stj. félagsins um það, hvernig skuli koma fyrir byggingunni, og þá verður hún teiknuð og fé lagt fram. Niðurníðslan á jörðinni er ekki nema eðlileg. Ef farið væri að byggja á jörðinni nú, þá getur það staðið í vegi fyrir meiri framkvæmdum síðar eða það yrði a.m.k. óþarfur kostnaður. Þegar byggt verður á jörðinni, mun húsið verða teiknað af teiknistofu Búnaðarbankans og það sett niður þar, sem það verður hæfilegt skólasetur. Þótt ekki hafi enn verið reist hús á jörðinni, finnst mér það annars óþarfi að vera að tala um niðurníðslu á henni, þar sem ekkert hefur verið framkvæmt þar til þess að jörðin bíði tilbúin til þeirrar notkunar, sem henni er ætluð.