05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Ég held, að hæstv. fjmrh. misskilji alveg eðli þessa máls. Hann hefur þegar birt sundurliðun á þeim nauðsynjum, sem búið er að festa kaup á vestra. Það, sem gert hefur verið, er því aðeins að festa kaup á 40,5 þús. smál. af nauðsynjavörum, áður en sú verðhækkun kemur, sem nú er í vændum. Það er því ekki hægt að kaupa og flytja inn nema um 8 þús. smál. í viðbót auk þeirra 17,5 þús. smál. af nauðsynjavörum, sem óhjákvæmilega verður að kaupa og flytja inn að sögn hæstv. fjmrh. sjálfs. Hver er það, sem stendur í sjó undir hendur þar? Ekki er það verzlunarstéttin og ekki kaupfélögin. Og þegar hæstv. fjmrh. lýsti yfir, að einungis væri að ræða um 8 þús. smál. innflutning í viðbót, datt mér í hug, hvort hann og hans ráðuneyti treysti sér þá virkilega til að taka svona djúpt í árinni. En telji ráðh. það ekki eðlilegt verkefni ráðuneytisins, og það þykir mér líklegra, það er ekki til neins að setja upp slíkt stórveldi, þegar aðeins er um 8 þús. tonn nauðsynjavöru að ræða, og ráðh. er maður, sem hefur á þessu mikinn kunnugleika, — þá á hann að kannast við staðreyndir þessar eins og þær eru. Þegar hann talar um, að aðrir vaði upp undir hendur, væri honum betra að velja hentugri samlíking og smellnari.