22.01.1943
Efri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

118. mál, jöfnunarsjóður vinnulauna

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Það má að nokkru leyti vísa til grg. í þessu máli. Það hefur verið kunnugt um mörg ár, að það hefur verið eitt af þeim erfiðu málum, sem þjóðin hefur þurft að leysa úr, deilur milli vinnuþiggjenda og vinnuveitenda. Þetta hefur kostað þjóðina óskaplegt fé um mörg ár, orsakað vinnustöðvanir og alls konar vandræði. Og það, sem kannske verst er, að það hefur oft og tíðum verið út af smámunum, skapað kulda og andúð á milli þessara tveggja stétta, sem annars þurfa að standa saman til þess að vinna að framleiðslu. í landinu.

Þess vegna er þetta frv. fram komið, að það er ætlazt til þess, að framtíðin eigi hægara með, ef frv. verður að l., að komast yfir þessa agnúa. Um þetta hefur verið rætt mjög mikið af atvinnurekendum og töluvert af atvinnuþiggjendum, ýmsum stéttum þeirra. Ég fyrir mitt leyti hef átt tal bæði við atvinnurekendur og vinnuþiggjendur um það, sem er aðalefni þessa frv., og þeim hefur litizt vel á það, sem þar er lagt til. Ég ber þetta frv. fram í trausti þess, að vilji sé fyrir því að fylgja málinu gegnum þetta þing, svo að unnt sé að koma á stofn sjóði með tekjum frá síðasta ári. Það er ekki víst, hvenær við höfum tækifæri til eða aðra eins möguleika á því og nú. Og kynni þá að dragast að stofna þennan sjóð, ef ekki yrði unnt að gera þetta að l. á þessu þingi. Það þarf ekki að fara mörgum orðum nema um 1. og 4. gr. frv. 1. gr. er um það, að hverju atvinnufyrirtæki, sem kaupir a.m.k. 3000 dagsverk á ári, sé skylt að leggja 2% af þeirri upphæð, sem það greiðir í vinnulaun, í jöfnunarsjóð vinnulauna, en heimilað að leggja allt að 10%. Þessi sjóður sé síðan notaður eins og 4. gr. ákveður. Ég hef talið rétt að fara svona langt niður með skyldugreiðslurnar, en heimilað atvinnurekendum að færa það allt upp í 10%, sem notað sé til þessa. Á þennan hátt mundi safnast hjá hverju fyrirtæki nokkuð góður sjóður til þess að nota til að jafna mismun þess, sem vinnuþiggjendur krefjast í kaup, og hins, sem atvinnuveitandi telur fyrirtækið fært um að greiða.

Ég þarf ekki að fara frekar út í aðrar greinar, en aðeins ræða 4. gr. En þar er farið fram á, að ef ágreiningur rís milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda, skuli greiddur úr þessum sjóði sá mismunur, sem deilt er um. Það má að sjálfsöfðu deila mikið um það, hvort rétt sé að hafa þetta ákvæði eins og gert er í frv., að greiða allan mismun á milli þess, sem krafizt er, og þess, sem atvinnurekandi vill borga, því að það getur vitanlega orðið til þess, að kaupkröfur yrðu ósanngjarnar, eða hvort aðeins á að taka til þann mismun, sem er á milli þess, sem sáttasemjari ríkisins lagði til á hverjum tíma, og hins, sem atvinnuveitandi treystir sér til að borga á sama tíma. En ég tel réttara á fyrsta stigi málsins, að greiddur sé mismunur á milli þess, sem krafizt er, og þess, sem atvinnurekandi treystir sér til að greiða, því að annars yrði sáttasemjara ríkisins alveg gefið vald til þess að vera nokkurs konar dómari í þessu efni. Og þá mundu vinnuþiggjendur álíta, að þeir gætu aldrei fengið meira en það, sem sáttasemjari lagði til. Mér fyndist það ekki endilega ósanngjarnt. En mér finnst hitt eðlilegri leið, sem farin er í frv. Samtímis þarf að setja skorður við því, að með ósanngjörnum kröfum sé hægt að eyða þessum sjóði alveg. Þess vegna hef ég sett það ákvæði í frv., að þegar búið er að eyða 25% af sjóðnum, þá skuli vinnuþiggjendur fá greiddan mismun á milli þurftarlauna og þess, sem atvinnurekandi treystir sér til að borga.

Nú má deila um það, hvað séu þurftarlaun. En um það hefur ekki verið svo ákaflega mikið deilt. Það er hægt að finna þau út af sjóðsstjórn, sem hefði úrskurðarvald til að ákveða þurftarlaun. Ef sjóðsstjórn yrði ekki sammála, mætti leita úrskurðar hagstofunnar.

Ég hygg þetta atriði ætti ekki að þurfa að vera til ásteytingar, enda hef ég talað við verkamenn, sem telja, að það ætti ekki að þurfa að vera. Það fyrirbyggir engan veginn, að haldið sé áfram samningum, þó að sjóðuirnn greiði þessa upphæð, til þess að hægt verði að halda áfram atvinnuveginum. En á sama. tíma hlýtur að framkallast sú krafa frá vinnuþegum, að það sé lagt undir rannsókn sjóðsstjórnar, hvort fyrirtæki geti borgað meira en það á hverjum tíma telur sig fært til. Frv. kveður svo á, að einmitt sjóðsstjórnin skuli hafa tækifæri til að rannsaka þetta mál hjá atvinnurekandanum. Önnur ákvæði í frv. eru í raun og veru aukaatriði, en þetta er mergur málsins.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um málið og vildi mælast til, að sú n., sem fær það til meðferðar, sýni því samúð og afgreiði það sem fyrst, svo að séð verði, hvort það fær samþykki d. eða ekki.