22.01.1943
Efri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

118. mál, jöfnunarsjóður vinnulauna

Flm. (Gísli Jónsson):

Aðeins fáein orð. Ég tel, og það er hugsunin á bak við þetta frv., að enginn geti eftir frv. stöðvað vinnu, hvorki vinnuveitendur né vinnuþiggjendur, meðan verið er að eyða 1/4 hluta af jöfnunarsjóðnum í hverju tilfelli. Þetta er klárt mál eftir frv. og einnig, að það getur enginn stöðvað vinnu, meðan hægt er að greiða þurftarlaun úr sjóðnum. Og það er fyrst, þegar það er ekki hægt, sem vinnustöðvun getur farið fram. Hins vegar getum við deilt um það, hvað þurftarlaun séu eða eigi að vera há og hvort þar eig í að miða við till. sáttasemjara. Hitt segir sig sjálft, að það getur ekki verið hægt að semja sérstaklega um vinnulaun fyrir suma aðila, hvorki á einum eða öðrum stað, eins og hv. 3. landsk. veik að og hélt fram, að þetta frv. leiddi af sér, að ætti að gera. Þess vegna er það, að strax þegar það ástand skapast, að greiða verður úr jöfnunarsjóði, mundi það reka enn meir á eftir um að reyna að gera viturlega samninga sem fyrst um kaup og kjör. Og það er miklu minna tjón fyrir landið að hafa það þannig, heldur en að allur flotinn stöðvist svo eða svo langan tíma. Þar að auki er möguleikinn til þess að sameiginlegur jöfnunarsjóður grípi inn í til að hjálpa þeim fyrirtækjum, sem ekki hafa nægilega sterka jöfnunarsjóði hjá sér. En það kæmi aldrei til greina, að hægt væri að taka af sjóði eins fyrirtækis til þess að greiða vegna annars eða annarra fyrirtækja þann umrædda mismun á kaupkröfum og tilboðum. Þess vegna mundi það aldrei líðast af almenningsálitinu, að eitt fyrirtæki greiddi sínum mönnum miklu minni laun heldur en almennt væri greitt í þeirri atvinnugrein.

Ég vænti þess, að hv. 3. landsk. þm. athugi þetta mál vel og geri „pósitívar“ till. um samræmingu á þessu máli, því að mér skilst, að hann vilji laga þessi mál og að hann geri þá brtt. við frv. í þá átt, sem hann og hans flokkur gæti fellt sig við.