22.03.1943
Efri deild: 78. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

118. mál, jöfnunarsjóður vinnulauna

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Eins og hv. d. er kunnugt, er langt síðan frv. þessu var vísað til allshn., og hefur flm., hv. þm. Barð., rekið á eftir afgreiðslu þess, en ástæðan til dráttarins er sú, að n. taldi óhjákvæmilegt að bera málið undir félagasamtök þau, sem hér eiga mestan hlut að máli, Vinnuveitendafél. og Alþýðusambandið. Það var dráttur á svörum, einkum frá Alþýðusambandinu, en síðan var málið tekið fyrir í n. og afgreitt þaðan með rökst. dagskrá. Umsagnirnar gengu í þá átt, að aðilarnir voru andvígir frv. eins og það liggur fyrir. Vinnuveitendafél. gerði margar aths. við það, en Alþýðusambandið takmarkaði sig við, að af því í frv. er skertur verkfallsréttur, er það á móti því. N. taldi hæpið að setja þessa löggjöf, án þess að tilraun væri gerð til að sameina þessa aðila um hana, og að um svo merkilegt mál væri að ræða, að ástæða væri til að beina því til ríkisstj. að láta utan þ. fara fram athugun á því. Ég mundi telja æskilegt, að n., sem sér t.d. um vinnuvernd, fengi málið til athugunar.

Við í n. vorum sammála um, að um merkilega hugmynd væri að ræða, en hún þyrfti nánari útfærslu. Ég mæli með, að rökst. dagskráin verði samþ.