11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Jónas Jónsson:

Það er nokkuð síðan þetta frv. var hér fyrst til umr., og skýrði hv. flm. það þá. Ég vil fyrst vekja eftirtekt á því, að í ræðu hans voru ávítur til þm. fyrir, að þeir hefðu sýnt mikið þekkingarleysi og ógætni og ekki vitað, hvað þeir voru að gera í fyrra, þegar afgreidd voru l. um rithöfundarétt og prentrétt. Ég veit ekki, hvort þessi nýkomni þm., sem hefur ekki mikið fylgi í kjördæminu, sem hann bauð sig fram í, hefur aðstöðu til þess að setja sig á háan hest og gera sig að dómara yfir öðrum þm. Hann hefur ekki rétt til að bregða Alþ. um heimsku og þekkingarleysi, enda virðist hann ekki sjálfur hafa fylgzt of vel með því, sem gerðist, og skal ég því rifja það ofurlífið upp fyrir honum.

Það, sem gerðist í fyrra, var það, að þegar vitneskja barst um það, að útgáfufélag kommúnista hér í bæ hafði tekið sér fyrir hendur að afbaka fornsögurnar, stytta þær og þýða á nútíma-hrognamál, myndaði Alþ. sér strax þá skoðun á þessu tiltæki, að það hefði skömm á því. Útgefendurnir voru samt nógu frekir til að halda áfram verkinu, gáfu út Laxdælu, en bókin hvarf fljótt, og ég veit ekki til, að neinir menn hafi haldið henni á lofti. T.d. er mér kunnugt um, að í skóla, þar sem kommúnisti hefur fjárforráð, voru keypt 30 eintök af bókinni á kostnað ríkissjóðs, en ótrúin á bókina var svo útbreidd, að ekki þótti fært að nota hana í skólanum. Um þessa bók er það að segja, að hún er stytt um fimmta part, eftir því sem háskólakennari einn, sem sérstaklega rannsakaði málið, kemst næst.

Þegar Alþ. var búið að fordæma bókina frá öllum hliðum og lesendurnir líka, gaf sama forlag út annað rit, sem er að vísu ekki Íslendingasaga, en stendur sögunum nærri á vissan hátt, sem sé þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Ódysseifskviðu. Sú bók er ein af undirstöðum málsins eins og það. er nú bezt talað og skrifað, uppspretta hins hreina máls. Þessa bók tók forlagið og afbakaði á hinn herfilegasta hátt. Þetta tiltæki hefur vakið svo mikinn viðbjóð, að tekið hefur fyrir alla sölu á bókinni, og yfir útgáfunni vofir ekki annað en eilíf fyrirlitning.

Eftir að Alþ. hafði sett l., sem bönnuðu hina hneykslanlegu meðferð á fornritum vorum, hefur enn sama útgáfufélag og sami höfundur tekið sér fyrir hendur að betrumbæta aðra fornsögu, afbakað nafn hennar og gefið hana út í leyfisleysi. Þetta var bein uppreisn, og var ekki svo mikið sem reynt að tala við þann ráðherra, sem málið að vissu leyti heyrði undir og eftir þeirri skoðun, sem hann lét í ljós á þ. í fyrra, hefði kannske sýnt mildi. Nú liggur fyrir dómur í héraði um sektir á hendur þeim, sem að þessu stóðu.

Þetta er saga málsins. Auk þessa leyfði höfundur sér að birta í formálanum fyrir seinni bókinni dónalegar skammir um Alþ., en lét svo dreifa bókinni út hér á Alþ. Ég held, að æruverðir þm. hafi beðið um, að farið yrði með hana, beint í miðstöðina.

Hef ég nú rakið sögu málsins, þar til kemur að því, að þessi nýkomni þm. frá engu kjördæmi leyfir sér að bera fram frv. um að fella úr gildi ársgömul l., sem samþ. hafa verið af miklum meiri hl. Alþ.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um ræðu hv. flm. En að fólk nú á dögum sé svo miklir aumingjar, að það geti ekki lesið fornsögurnar, nema þær séu gerðar að barnamat, bendir ekki á, að menntun og menning fari vaxandi í landinu, því að áður fyrr, þegar fólkið hafði miklu erfiðari aðstöðu en nú til að sinna slíku, kunnu jafnvel fátæklingarnir full skil á t.d. rímnakveðskapnum. Þá var málið hugsað í alvöru, og hinar þyngstu líkingar lágu mönnum í augum uppi. Ég held, að það sé ekki rétt, að hin unga kynslóð sé svo aum, að hún standi forfeðrum sínum svona mikið að baki. Því hefur verið haldið fram af fræðimönnum, sem líka kommúnistar virða, að það sé fullkomið samhengi í okkar bókmenntum, og vitnað í það, sem ekki er hægt að neita, að það er búið langa stund að lesa fornsögurnar og Heimskringlu með fullum árangri. Ef þessi kenning er rétt, er engin ástæða til að þýða fornsögurnar fyrir nútímafólk.

Í Þessu frv. kemur fram almenn niðurrifsstarfsemi, sem miðar að því að óvirða fornbókmenntirnar. Það eru til hér ýmsir menn, sem vilja óvirða nútímann og það, sem honum kemur við, og þessir sömu menn vilja einnig óvirða fornbókmenntirnar. En fornbókmenntirnar hafa lengi verið sú eign þjóðarinnar, sem hún hefur verið hreyknust af, og það er full ástæða til þess að vernda þær vél fyrir hvers konar niðurrifsstarfsemi.

Hv. flm. kom inn á það, að vafasamt væri, hvort ríkið hefði rétt til þess að taka sér það vald, sem felst í umræddum lögum. Ég vil í því sambandi taka rúmlega 30 ára gamalt dæmi, þótt hér sé ólíku saman að jafna.

Það var deilt um það í sambandi við bannlögin 1909, hvort ríkið hefði rétt til þess að taka söluleyfi af vinkaupmönnum. Það var t.d. eitt veitingahús, sem hafði fengið leyfi til þess að veita áfengi, sem fór í mál við ríkið út af þessu með þeim forsendum, að ekki væri hægt að svipta það því leyfi, sem það hafði fengið á löglegan hátt. Þa fór svo, að gistihúseigandinn tapaði málinu.

Annars hef ég hugsað mér úr því að þetta frv. er komið fram, og ég geri ráð fyrir, að það verði samþ. til n., að menn ættu að nota þetta tækifæri til þess að gera l. harðari móti þessum ósóma, og að því leyti get ég verið þakklátur þeim, sem standa að framkomu þessa frv.