11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Flm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Ég sé ekki ástæðu til að svara orðum hv. þm. S.-Þ. miklu, Það er auðheyrt, að þessi hv. þm. hefur ekki gert sér ljóst, hvers konar útgáfustarfsemi það er, sem hér um ræðir. Hann segir, að Laxdæla sé afbökuð í þessari útgáfu, að hún sé þýdd og færð á eins konar hrognamál Viðvíkjandi þessu hrognamáli er það að segja, að það hefur ekki verið gerð nein breyting á málinu í þessari nýju útgáfu, heldur aðeins stafsetningunni verið breytt, ritað og fyrir ok, að fyrir at og því um líkt. Frásagnir hans af styttingu sögunnar eru einnig mjög ýktar, því að það nær engri átt, að sagan hafi verið stytt um 1/5 , eins og hann segir, heldur hafa aðeins verið feldir úr henni tveir kaflar, sem koma sögunni eiginlega ekki við. Það, sem þessi hv. þm. minntist á þýðinguna á Ódysseifskviðu kemur þessu máli ekkert við, þar sem það er þýðing úr erlendu máli. Það hefur heldur ekkert frv. komið fram, sem lætur lög ná til þýðinga á Ódysseifskvæðinu eða annarra þýðinga á íslenzka tungu, enda væri þá farið að ganga ærið nærri prentfrelsinu.

Ég ætla ekki að svara skætingi hv. þm. um það, hverjir óvirða nútíma- eða fornbókmenntir okkar. Það verður gert upp á öðrum vettvangi, hverjir hafa mest óvirt íslenzkar nútímabókmenntir. — Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar við 1. umr. þessa máls.