31.03.1943
Efri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2742)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. 3. minni hl. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Hv. frsm. eins minni hluta menntmn. hélt hér ýtarlega ræðu í gær og var hissa á því, að menn skyldu vera svo vondir að leyfa ekki að gefa út skrílútgáfur af Íslendingasögunum. Þetta taldi hann ranglæti. Ég held, að þessu sé fljótsvarað, það hefur aldrei verið gert sams konar brot gegn Íslendingasögunum og hér ræðir um, og þess vegna hefur aldrei þurft að gera ráfstafanir þeim til verndar, en þetta brot var sérstaks eðlis og þurfti sérstakra aðgerða af ríkisins hálfu.

Það er mjög spaugilegt, þegar þessi hv. þm., sem ekki er von, að hafði gert mikið gagn í þinginu, — hann er aðeins búinn að vera hér stuttan tíma —, fer að segja meiri hluta Alþ. til syndanna, og að hann skilji ekkert í því, að þm. skuli hafa verið svo heimskir að gera löggjöf gegn afbökunum Íslendingasagna fyrir tveimur árum síðan, og hann gerir þetta í fullri alvöru.

Þessu frv., sem hér er komið fram, var ekki betur tekið í menntmn. en jo,ð, að fulltrúi Sjálfstfl. vildi vísa því frá með rökst. dagskrá og fulltrúi Framsfl. vildi fella það. Afstaða flm., hins þriðja í menntmn., er því hin vesælasta, og ef þessi maður hafði skilið afstöðu þ. til mál:ins, þá hefði hann ekki lagt út í það að gerast málsvari skrílbókmennta og meira að segja móðga þá þd., sem hann er kominn í, með því. að gera ráð fyrir, að hv. þd. snúist frá góðu máli yfir á hneykslanlega braut, sem ekki verður varin.

Ég hef í nál. mínu í þskj. 605 gert grein fyrir sögu þessa máls, og þessi málsvari skrílbókmenntanna hefur ekkert máli sínu til stuðnings, því að útgáfa Halldórs Laxness er skrílbókmenntir, eins og ég skal sannfæra hann um með orðum Sigurðar Nordals.

Í „kontrapunkts“, formálanum eftir Halldór Kiljan Laxness er því haldið fram af kommúnistum, að Sigurður Nordal sé við útgáfuna riðinn óbeinlínis. Nú er það vissulega ekkert fyrir brigði, þó að þeir vildu skreyta sig með þeim fjöðrum, af því að þeir vissu, að almenningur bar traust til Sigurðar Nordals. En svo þegar Sigurður Nordal kemur á fund menntmn. þá er hann ekki myrkur í máli um það, hversu fráleitt verk hann telur þessa útgáfu af Laxdælu vera. Ég skal lesa hv. þm. þau orð, sem sanna þetta, því að þótt það sé ekkert merkilegt, að Árni Pálsson og Björn Guðfinnsson skuli fordæma hana, þá er það merkilegt, að Sigurður Nordal skuli gefa þessari útgáfu þennan vitnisburð og þessum lærisveini sínum um leið þá hirtingu, sem hann fær. Í bréfinu stendur undir A.-lið: „Við samanburð á þessari útgáfu og útgáfu þeirri, er hún byggist á, kemur í ljós, að fjölmörgu því í máli, sem á engan hátt verður talið til stafsetningar, er breytt: a. Ýmiss konar breytingar eru gerðar á orðmyndum. b. Orðum er sleppt. c. Orðum er bætt inn. d. Skipt er um orð. e. Orðaröð er breytt. f. Bætt er inn heilum setningum eftir útgefandann“.

Og enn fremur segja þeir:

„Á fundi menntmn. hinn 22. þ. m. voru færð mörg dæmi þessu til sönnunar, og teljum við þarflaust að endurtaka þau hér, enda auðvelt hverjum þeim, er nennir, að ganga úr skugga um þau. Hins vegar viljum við taka fram, að við teljum allar þessar breytingar til skemmda á máli og stíl sögunnar.“

Í stuttu máli, prófessoranir játa, að þótt þeir telji hér upp alla þessa ágalla, þá sé það ekki nema partur af því, sem hægt sé að segja, og hver sem leggja vilji á sig það erfiði að bera saman þessar tvær útgáfur, geti gengið úr skugga um.

Þá segja þeir í B.-lið: „Meðferð sögunnar er á þá leið, að stórfelldar efnisbeytingar hafa verið gerðar á henni; a. Einstökum setningum er sleppt. b. Heilum köflum er sleppt, t.d. á einum stað 5 kapítulum. c. Einstaka setningar eru færðar til. d. Kaflar eru færðir til. e. samdar eru setningar inn í textann, þar sem útgefanda hefur þótt nauðsyn til bera“.

Þetta er þá dómur þessara þriggja fræðimanna, sem voru kvaddir til að segja álit sitt, og meðal þeirra maður, sem stóð nærri þessu fyrirtæki. En þegar hann er kvaddur til sagna sem fræðari, þá vill hann ekki segja ósatt. Hann fordæmir þessa útgáfu, og hann rökstyður mál sitt alveg sérstaklega vel, svo að hann hefur aldrei gert betur, og sannar, að þessi útgáfa er alger fölsun á hinni upprunalegu og réttu Laxdælu. Unnendur hins góða málstaðar er sérstaklegur ávinningur í því, af því að hið kommúnistíska fyrirtæki, sem stóð að þessari afbökuðu útgáfu, hafði flaggað með nafni Sigurðar Nordals. Nú geta þeir ekki stuðzt við hana lengur.

Þegar þess vegna forlag, sem gefið hefur út mest af því versta rusli, sem gefið hefur verið út á íslenzku, og hefur t.d. vírheft „Gösta Berlings Saga“ eftir Selmu Lagerlöf og sýnt henni annan álíka sóma, þegar það kom út með þessa útgáfu, var ekki furða, þó að mönnum bæði utan þ. og innan fyndist ástæða til að stöðva þetta. Þess vegna voru þessi l. sett. Og það hefur ekkert komið fram síðan, sem breytir þeirri nauðsyn. En forlagið lét sér ekki þetta nægja. Þessir félagar gáfu út „Hrafnkötlu“ á s.l. sumri, og er mér nær að halda, að þessi verknaður hafi verið meiri andstyggð en hinn fyrri. Þm. fannst það bíræfið, að eftir að búið var að setja þessi lög, þá skyldu þessir félagar taka aðra Íslendingasögu, breyta á henni nafninu, skrifa svo skammir um þingið almennt í formálann að bókinni og senda svo þingmönnum að gjöf. Það er alveg dæmalaust, að nokkur maður skuli vera samvistum við þ., sem áður hefur komið fram á þennan hátt. Þó að þetta sé mönnum í fersku minni, þá vil ég rifja það upp til að sýna, hvernig menn eru komnir hér á þing. Það eru engin dæmi þess, að menn gefi út bannvöru með skammir um þ. og sendi þm. að gjöf. Svo lágt menningarstig og auðvirðilegt manngildi og lítilfjörlegur hugsunarháttur stendur hér á bak við, að það er full ástæða til þess að rifja það upp á hverju þingi. Og það er kommúnistaflokkurinn, sem stendur að þessu. Þetta bregður birtu yfir þetta fyrirtæki og þann flokk, sem við það er riðinn. Hv. flm. hefur gert þ. greiða með því að gera því mögulegt að halda reikningsskil yfir hann og hans flokksmenn.

Ég þarf ekki að vera fjölorður um þetta mál Ég hef rakið sögu þess í þskj. 605, og þm. geta kynnt sér hana þar. Ég get ekki verið samþykkur hv. 2. þm. Árn. um, að eðlilegra sé að vísa frv. frá heldur en að fella það. En ef þm. skyldu hafa meiri áhuga fyrir því en að drepa það beint, þó mun ég leggja fram vissa formúlu, sem ég vænti, að hv. 2. þm. Árn. og aðrir, sem góðu máli unna, gætu verið samþykkir, ef það kæmi í ljós, að það þurfi að herða á l. og að sökin sé gerð meiri, sektin þyngri og brotið alvarlega. Þá get ég verið með því, því að ég hygg, að dómurinn í málinu sé of vægur, og má herða á ákvæðum laganna, svo að sökudólgarnir verði þess meðvitandi, að þeir hafi brotið af sér. Með því að taka l. til endurskoðunar getur verið, að verk þeirra verði enn betur krufin til mergjar. Ég er þakklátur hv. flm. fyrir að koma með þetta mál inn á þ. Ég hygg það vel viðeigandi, að það kæmi aftur í haust, og svo áfram svo lengi sem með þarf, svo að það yrði á hverju ári hægt að gefa þessum piltum þá ráðningu, sem þeir þurfa að fá.