31.03.1943
Efri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. 1. minni hl. (Kristinn Andrésson):

Það hefur nú fram komið, sem búast mátti við, að umr. yrðu um nokkuð annað hér nú en þetta frv. sjálft.

Ég minntist þess í gær, þó að svo virðist sem hv. þdm. hafði ekki skilið það vel, að það er tvennt ólíkt, deilur manna um einstakar útgáfur af fornritunum og öðrum góðum bókmenntum annars vegar og hins vegar l., sem sett eru um það að. banna útgáfur bóka. Í raun og veru kemur því útgáfan á Laxdælu, hvernig sem menn vilja. um hana dæma, alls ekki málinu við að því er snertir þetta frv. Aðalatriðið í þessu máli er lagasetningin sjálf, hvort hægt er að setja svona l. eins og var 1941. Og það var það, sem ég skýrði frá í gær, að ég hélt fram, að slík l. sem þessi væri ekki hægt að setja, vegna þess að þau fyrst og fremst ná ekki nema til Íslendinga, og er ekki hægt að banna þessa útgáfu nema hér á Íslandi, en hægt er að gefa út Íslendingasögur, hvenær sem er og hvernig sem er utan við íslenzka landsteina. Í öðru lagi, að svona löggjöf er ekki til annars staðar í heiminum og stríðir gegn anda alþjóðalaga. Og enn fremur vegna þess, að þessi l. eru jafnframt brot á íslenzku stjórnarskránni um prentfrelsi og ákvæðum um það, að aldrei megi í lög leiða ritskoðun hér á Íslandi. Hér eru því hv. þdm., — og auðvitað viljandi, — að snúa þessu máli yfir á aðra sveif, frá sjálfri lagasetningunni og yfir til umræðna um útgáfuna á þessari einstöku bók, Laxdælu. Og ég verð nú að segja það í fyrsta lagi viðvíkjandi hv. þm. S.–Þ., að það situr mjög illa á honum að dæma svona um þessa útgáfu á Laxdælu, því að hann mun vera einn hinna fyrstu, sem hafa brotið af sér í þessum efnum, ef hér er um afbrot að ræða, eins og honum er títt að ræða mjög um við umr. um þetta efni. Hann hefur í Íslendingasögu sinni, sem hann hefur skrifað og ætlað irtrnaskólum, brotið þá reglu, að Íslendingasögur eigi að gefa út með samræmdri stafsetningu. og samt gerist þessi hv. þm. „svo bíræfinn“, svo að ég noti hans eigin orð, að hann „síterar“ þar eftir minni í sögur þannig, að setningarnar eru ekki eins og í sögunum sjálfum. Og þetta er gert í bók, sem ætluð er til kennslu í barnaskólum. Af þessu má mest marka, hvílíkt alvörumál þessum mönnum er með stafsetninguna á íslenzkum fornritum, að hún haldist, þegar þannig er að hafzt.

Og fyrir annað er útgefanda Laxdælu legið á hálsi, að hann fellir nokkra kafla úr sögunni, sem ekki koma við sjálfu samhengi sögunnar, heldur má telja sem innskot í söguna. Og í því sambandi þarf ekki annað en benda á útgáfu þá, sem hv. þm. S.-Þ. gerði af ljóðum Einars Benediktssonar. Þar leyfir hann sér að brjóta þetta: sama „prinsip“, þar sem hann felldi erindi úr kvæðum Einars Benediktssonar í þeirri útgáfu. Og ég veit ekki, hvort það er minni „bíræfni“ að fella heil erindi úr stuttum kvæðum, þótt eftir nútímaskáld sé, — sem er eitt af þeim beztu, sem íslenzka þjóðin hefur átt —, heldur en að fella úr fornritum ættartölur og einstaka kafla, sem margir líta svo á, að ekki komi við sjálfu samhengi sögunnar, og eru eingöngu felldir úr til þess að létta alþýðu manna lestur þessara sagna. Þannig hefur hv. þm. S.-Þ. brotið báðar þær reglur, sem útgefanda Laxdælu er legið á hálsi fyrir að hafa brotið, hvorar tveggja , að birta sögurnar með hinni gömlu stafsetningu og fella ekki úr þeim. Þetta varð ég að taka hér fram, vegna þess að þessum hv. þm. er ljúfast að halda sig eingöngu við útgáfu þessa af Laxdælu, en koma ekki nærri þessu máli, sem er lagasetningin sjálf. En það er þessi lagasetning, sem ég sagði í gær, að væri hneyksli fyrir Alþ., af því að slíkt þekkist hvergi annars staðar. Og einmitt þessi lagasetning er dómur þeirra hv. þm., sem hafa sett hana, um, að þeir vantreysti dómgreind þjóðarinnar til þess að meta gott frá röngu í útgáfu þessara fornsagna. Og það er eftirtektarvert að heyra þessa menn, sem svo mikið ræða um, að þeim séu fornrit íslendinga heilög og þeir kunni svo og svo vel að meta þau, svo mjög, að þar má ekki breyta einum stafkrók og sögurnar verða að þeirra dómi endilega að halda gömlum miðaldabúningi, jafnvel í stafsetningu. Þeir virðast þrátt fyrir þetta hafa svo mikla vantrú á Íslendingasögunum, að þeir halda bókstaflega, að Íslendingasögurnar séu skemmdar eða glataðar fyrir þjóðina, ef einhver útgáfa kemur út af þeim, sem þeir álíta eitthvað gallaða. Þetta sýnir ekkert annað en að þeir virðast ekki hafa neina trú á Íslendingasögunum, að þær geti staðizt í sinni gömlu mynd, ef þeir halda, að það tilheyri einhverri vernd á þeim að setja l. gegn því, að gerðar séu hinar og aðrar útgáfur af þeim. Sannleikurinn er nefnilega sá, eins og ég benti á í gær, að hvernig sem háttað er útgáfu þessara sagna, — það geta verið misjafnir dómar um það —, þá þurfa menn ekki að halda, að það þurfi að setja l. á Alþ. til þess að vernda þær. Slíkt ber vott um vantraust á dómgreind þjóðarinnar til að meta Íslendingasögurnar. Enda þekkist það hvergi nokkurs staðar annars staðar, að það þyki þörf á slíkri lagasetningu sem þessari. Enda er það kunnugt, að þessi lagasetning var ekki sett til verndar fornsögunum, heldur sem hefndarráastöfun af hálfu þessara manna á hendur útgefanda Laxdælu, Halldóri Kiljan Laxness. Sést þetta bezt á því, að þó að önnur stafsetning sé notuð í kennslubókum í Íslendingasögu, þá segir ekki nokkur maður neitt um það. Það hefur komið hér út Gylfaginning, gefin út af Vilhjálmi Þ. Gíslasyni, og það hefur enginn álitið það neitt hneyksli. En þessu ofsóknarbrölti hefur verið stefnt gegn einum manni, af því að það hefur þótt þurfa að ná sér niðri á honum, Það átti sem sé að koma fram hefndum á þessum manni, og þá leyfði þ. sér að ganga svo langt að brjóta allar reglur um lagasetningar og semja þessi I., sem eru til hneykslis fyrir Alþ. og þykja hlægileg alls staðar fyrir utan landsteina okkar. Auðvitað vita hv. þm. þetta mjög vel. Og ég get mjög vel skilið þessa menn, þótt þeir nú sjái, að þessi lagasetning var hneyksli frá upphafi og eigi sér enga hliðstæðu, þá þyki þeim leiðinlegt eftir tvö ár að viðurkenna þetta hér opinberlega með því að afnema þessi l. og vilji því heldur láta afnema þau með mildari hætti svo sem með rökstuddri dagskrá, í trausti þess, að rithöfundal. verði endurskoðuð og þá verði felld niður í sambandi við þá endurskoðun þessi fáránlega og heimskulega lagasetning. Það er skiljanlegt, þar sem þessir hv. þm. hlupu svo á sig hér fyrir tveimur árum, að þeim þyki leiðinlegt að fara að afnema l., sem þeir settu þá, þó að þeir vitanlega sjái nú, hvaða frumhlaup þetta var. Og þetta frumhlaup var svo heimskulegt. að það er varla svara vert, sem hv. þm. Dal. hélt hér fram áðan, þar sem hann talaði um, að í stað þess að afnema þessi l. væri ástæða til að herða á þeim. Auðvitað gerir þ. aldrei slíka firru að fara að herða á þessari löggjöf, þar sem það hefur alls ekki neytt leyfi til þess að setja slíka löggjöf sem þessa.

Svo er það annað mál, að svo framarlega sem maður með heilbrigðri dómgreind er hér kennslumálarh., þá er það gefið mál, að hann leyfir hvaða Íslendingi sem er að gefa út fornritin, hvernig sem hann vill, því að allt annað er brot prentfrelsisl. landsins. Sjálf stjskr. kveður svo á, að aldrei megi ritskoðun leiða í l. hér á landi. Og hverjum kennslumálarh. með heilbrigðri dómgreind dettur vitanlega ekki í hug að brjóta á móti stjskr. með því að neita hvaða Íslendingi sem er um leyfi á útgáfu á hvaða bók sem er, eftir að rithöfundaréttur er útrunninn á þeirri bók. Og það kemur heldur ekki til mála, að Halldór Kiljan Laxness verði hindraður með þessari lagasetningu í að halda áfram með þessa útgáfu, hún kemur ekki að gagni til þess. Og eftir dómnum, sem kveðinn var upp út af útgáfunni á Laxdælu, fær útgefandinn dálitla sekt, sem lítið munar um, en bókin er ekki gerð upptæk, eftir sem áður, og vitanlega er það rétt. Hv. þm. Dal. verður því aldrei að því, að hægt verði með einhverri lagasetningu að stemma hér á að ósi í þessum málum. Ef þessir menn hefðu nokkurn sjóndeildarhring og sæju eitthvað fjær nefi sínu og vissu eitthvað, hvað gerist erlendis í þessum efnum, þá væru þeir ekki með slíkar fjarstæður. Halda hv. þm., að rit Shakespeares séu Englendingum ekki eins heilög eins og okkur fornritin okkar? Eða Spánverjum Don Quixote? Þessar þjóðir eiga þó mjög mikið af styttum og breyttum útgáfum af þessum ritum. Og vitanlega dettur þeim ekki í hug annað en gefa þessi rit út á nútímamáli á hverjum tíma. Og nú er Shakespeare gefinn út í endursögn fyrir unglinga, og er orðinn klassískt rit þannig.

Ég held, að það væri skynsamlegast fyrir það afnema þessi l. nú þegar og bíða ekki eftir hæstaréttardómi í Hrafnkötlumálinu.

Viðvíkjandi ræðu hv. 2. þm. Árn. vil ég segja það, að það er mjög mikil hógværð af hans hálfu, og misskilningur reyndar líka, að álíta það, að hér sé hægt að fara einhverja millileið með því að breyta eitthvað þessari lagasetningu. Það eru ekki nema þrjú aðalatriði á þessum 1., og þau eru öll jafnfjarstæð. Og það kemur hér ekkert annað til mála heldur en að afnema þessi ákvæði öll saman. Þessi l. eru frá upphafi til enda einn fáránlegur samsetningur, sem engin dæmi eru til um annars staðar. Það er ekki nokkur brú í þessum l. um það get allir verið sammála. Og hvað sem líður dómum háskólakennaranna um útgáfu Laxdælu, þá eru þeir sammála um það, að þessi lagasetning sé óverjandi. Þegar þeir eru búnir að gagnrýna l., stendur ekki eftir stafkrókur í þeim. Í þessum l. stendur, að þó að liðin séu 50 ár eða meira frá dauða rithöfundar, megi ekki birta rit hans breytt að efni, meðferð eða málblæ, ef breytingunum er svo háttað, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði tjón, og í öðru lagi, að hið íslenzka ríki hafi rétt til þess að gefa út íslenzk rit, sem samin eru fyrir 1400. Og hver á svo að dæma um það, af hverju menning þjóðarinnar bíði tjón í þessu efni? Þessi setning hefur líka orðið til athlægis um allt land. Og slíkt ákvæði sem þetta að ætla sér að fara að banna útgáfu íslenzkra fornrita, sem skrifuð eru fyrir 1400, er fjarstæða í sjálfu sér, eins og ég hef nógsamlega tekið fram í gær og í byrjun ræðu minnar nú.

Í þriðja lagi á svo að gefa þessi rit út með samræmdri stafsetningu fornri. En háskólakennararnir hafa sýnt fram á, að hún er ekki til. og því er fásinna að tala um slíka stafsetningu. Hv. þm. S.-Þ. er að reyna að snúa sig út úr þessu, og það er auðheyrt, að hann hefur aldrei skilið, hvað samræmd stafsetning er, því að hann segir hér í sínu vitlausu nál.: „Þess er heldur ekki krafizt í verndarlögunum“, þ.e., að nokkur ein stafsetning löghelguð sé á fornritunum, „heldur, að stafsetningin sé samræmd, þ.e. með föstu skipulagi, en ekki sundurlaus grautargerð.“ Þessi hv. þm. botnar auðsjáanlega ekkert í því, hvað átt er við með samræmdri stafsetningu. Og þetta ákvæði viðvíkjandi stafsetningunni er fásinna í þessum l., og þar kemur því ekki til greina nein breyt., heldur það eitt að afnema þetta ákvæði.

Það liggur því ekkert fyrir skynsamlegt annað en að afnema þessi l. Og það er misskilningur hjá hv. 2. þm. Árn., að um þau komi nokkur millileið til greina, því að öll þessi þrenns konar ákvæði í þeim eru jafnfráleit. En ég hef þó varla búizt við því, að ég hefði svo mikil áhrif á þessa hv. þm., að þeir vilji afnema l. þessi. Get ég skilið, að þeim þyki það mjög leiðinlegt, eins og ég hef minnzt á. En hvort sem hæstv. Alþ. lætur þessi l. standa lengur eða skemur, þá eru þau ómenningarbragur á Alþ. svo lengi sem þau standa, og því fyrr sem Alþ. vill afnema þau, því betra. Ég efast um, að Alþ. hafi nokkru sinni sett nokkur l., sem því eru til meiri smánar heldur en þessi l., og þau hljóta að vera ómenningarbragur á Alþ. í augum allra dómbærra manna alls staðar annars staðar í heiminum. Ég geri líka ráð fyrir, að þegar rithöfundal. verða endurskoðuð, þá verði ákvæði þessara l. felld niður, svo að af þeim ástæðum þurfi ekki að fresta þessu frv., eins og hv. þm. S.-Þ. var að minnast á. En hins vegar veit ég líka það, að það eiga ekki alla tíð sæti á Alþ. jafn afturhaldssamir menn í þessum málum eins og nú. Og það hlýtur að koma sá tími innan skamms, að það verði frjáls útgáfa fornritanna fyrir hvaða Íslending sem er. Þessi lagasetning getur aldrei haldið og getur ekki staðið lengi. Hún verður afnumin strax og frjálslyndari og viðsýnni menn koma inn á Alþ. og eignast þar sæti.

Ég gæti vitanlega farið miklu lengra út í þetta mál hér og ýmsu vikið að hv. þm., sem hér hafa talað. En ég fer ekki öllu lengra út í það nú. Ég heyri, að hv. þm. Dal. hefur enn kvatt sér hljóðs, svo að honum þykir ekki nóg komið. Og það er sennilegt, að hann ætli að tala sér til enn meiri smánar í þessu máli heldur en hann hefur þegar gert. Þessi hv. þm. mun eiga sæti í útgáfustjórn fornritanna. Í öðru lagi er það orðið alkunnugt hér á Alþ., að hann er ekkert annað en dindill hv. þm. S.-Þ. og hefur Aldrei greitt atkv. móti nokkru, sem hefur komið frá honum. Og þó að hann þykist vera bókamaður og bókasafnari, þá stendur hann í röð afturhaldssömustu manna, sem hér eiga sæti. Og tryggð hans við fornritaútgáfuna íslenzku er ekki meiri en það, að hann mun hafa verið með því að setja upp annað bókaforlag til samkeppni við fornritaútgáfuna, og mun hafa ætlað að ganga í lið með hv. þm. S.-Þ. á móti fornritaútgáfunni, því að. hún en eitt af því, sem hv. þm. S.-Þ. vill feigt, og nýtur hann þar ágætrar fylgdar hv. þm. Dal. Svo það er varla ástæða til að búast við viðsýni í ræðu, sem mælt er af vörum þessa hv. þm. En ég get ekki betur en ég hef gert, að lenda mönnum á, hvílík smán þessi löggjöf er, sem á sér ekkert fordæmi annars staðar í heiminum, sem stríðir á móti stjórnarskrá Íslands, og að hún ber vitni um það mesta vantraust, sem hugsazt getur á dómgreind íslenzku þjóðarinnar í að meta bókmenntir sínar. Ég hef bent hv. þdm. á þetta, og ég get ekki meira. Ég treysti mér ekki til að sannfæra þá í þessu máli, því að þeir hafa þar enga sannfæringu. Þeir hafa einu sinni hlaupið á sig í málinu, og þeir blygðast sin fyrir að taka þessa lagasteningu aftur, og get ég vel skilið það. En í fullu trausti þess. — hvað sem líður afgreiðslu þessa frv. nú —, að bókaútgáfa verði frjáls aftur í landinu, ætla ég ekki að orðlengja frekar um þetta mál nú, heldur láta atkv. skera úr um frv. Og verði þessi löggjöf ekki endurskoðuð, ef svo fer, að frv. verður ekki samþ., af þessum hv. þm., treysti ég því, að á Alþ. komi frjálslyndari menn, sem sjái sóma sinn í því að afnema þessi lög.