02.04.1943
Efri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2757)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Páll Hermannsson:

Herra forseti. — Ég var farinn að finna til þess, að hér var mikill liðsmunur. Nokkuð margir voru á móti hv. 7. landsk. einum, þar til hann fékk sálusorgarann í lið með sér. Sálusorgarinn hélt sem næst því klukkutíma ræðu og gaf yfirlýsingu um fylgi sitt við hv. 7. landsk.

Mér skildist á hv. 7. landsk., að mismunur á stafsetningu fornrita stafaði af mismunandi útgáfum og könnun handrita hafi verið gerð til að samræma og bera saman hin ýmsu handrit. En ég vil leyfa mér að efast um, að handritakönnun hafi farið fram, — ég efa það stórlega. Skal ég í því sambandi benda á formála H. K. L. að Hrafnkötluútgáfunni.

Hann byrjar svona, með leyfi hæstv. forseta: „Hrafnkatla er hér með örfáum undantekningum prentuð samkvæmt hinni sígildu útgáfu Konráðs Gíslasonar, Kaupmannahöfn 1847, og færð til lögboðinnar stafsetningar íslenzka ríkisins.“

Ég trúi því varla, ef þessar „örfáu undantekningar“ styddust við handritarannsóknir, að þess væri ekki getið. Lítum á formála útgáfu Sigurðar Kristjánssonar. Þar segir:

„Hrafnkels saga freysgoða er hér prentuð eftir útgáfu Konráðs Gíslasonar, Khöfn 1847. — Auk þess hefur verið haft til samanburðar eftirrit af sögunni, sem séra Þorleifur Jónsson á Skinnastöðum hefur ritað með samanburði handrita og ætlað til prentunar, en það virðist alveg samhljóða útgáfu Konráðs Gíslasonar.“ (KA: Þm. er óhætt að trúa því, að það er mikill orðamunur á þessum tveimur útgáfum). Ég held mér við það, sem formálinn segir beinum orðum, meðan annað er ekki sannað. Sá orðamunur, sem er milli Hrafnkötluútg. og útg. Sig. Kr., hlýtur að mestu að stafa af óvandvirkni. Ég dreg ekki í efa, að H. K. L. hafi vit á íslenzku máli, en í þessum formála hans eru villur, sem hvert fermingarbarn ætti að geta leiðrétt, og það gefur lélega hugmynd um vandvirknina. Það getur vel verið, að málið sé hv. 7. landsk. kunnara en mér, en hann á þá eftir að sannfæra mig um það.