05.04.1943
Efri deild: 88. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. 3. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég vil benda hv. 1. þm. Reykv. á það sem listamanni, hvort hann vilji gera eftirmynd af hinu fræga listaverki af hinum heilaga Sebastian, en tæki í hans stað þennan Húsavíkur-Lalla og hefði hann á myndinni með þeim mörgu spjótum, sem í hann hefur verið stungið. En þar sem stungið hefur verið upp á, að málið væri undirbúið betur, þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að það gæti orðið þannig, ef þessi hv. þm. kæmi með till. um það, að n. tæki þetta aftur til athugunar og reyndi að gera sérstakan leiðarvísi fyrir hv. 1, þm. Reykv. og aðra þá, sem ekki gætu betur en hann áttað sig á því. Ég býst við, að n. féllist á þetta. og efast ekki um, að það sé hægt.

Í sambandi við þessa bókagerð, sem talsvert hefur verið talað um, vil ég benda á annað dæmi eldra, sem kom fyrir nú fyrir nokkrum árum. Sá, sem gaf út Laxdælu og Hrafnkötlu, gaf út fyrir nokkrum árum fræga enska bók, sem átti að vera í léttri þýðingu. Maður nokkur hér í bænum, sem átti 11 ára gamlan son, kaupir þessa útgáfu, sér, að hún er fölsuð og búið að setja pólitískan áróður inn í hana fyrir þann flokk, sem hafði um þetta vélað. Nú fannst þessum föður gaman að vita, hvaða munur væri á þessari útgáfu og eldri útgáfunni, sem var rétt og vel gerð. Hann fær dregnum báðar útgáfurnar, og 11 ára barnið finnur, að sú síðari er fölsuð og vill ekki sjá þá útgáfu, sem gerð var á sama hátt og Laxdæla og Hrafnkatla. Og ekki sízt, þegar það glögga dæmi er athugað, sem hv. 1. þm. N.-M. minnist hér á, að þessir aðilar leggi það í vana sinn að breyta sögunum eftir því, sem þeim býður við að horfa, þá má fyllilega búast við, að þeir fari að setja flokkslegan áróður inn í sögurnar, og ef þeir gefa út Njálu, þá verði Skarphéðinn, Njáll og Gunnar látnir tala eins og menn í Austurvegi, sem ráða Rússlandi. Væri það ekki nema beint framhald af því, sem á undan er gengið, og mætti þannig auðnast að ganga af fornritunum dauðum. Ég er algerlega með till., sem hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. N.-M. bera fram, að það sé skorað á stj. að gera þessa löggjöf sterkari og harðari til að fyrirbyggja frekar en orðið er, að skemmdarverk séu unnin á fornsögum okkar.