11.02.1943
Neðri deild: 55. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2795)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Sigurður Kristjánsson:

Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um þetta mál. En ég vildi sér staklega vekja athygli á því, að þessi rök hv. þm. Mýr., að málið hafi ekki verið tekið sem flokksmál í hv. Ed. og þess vegna eigi það að ná fram að ganga hér, þau met ég fyrir mitt leyti einskis. Ef menn líta rétt á þetta mál, þá sjá menn, að það er einn af þeim leiðinlegu sleikjuháttum, sem hv. þm. sýna við kosningar. Og þegar á það uppboð er komið, þarf ekki nema einn gikk í þeirri veiðistöð, því að þá koma aðrir og vilja einnig láta vingjarnlega framan í hv. kjósendur.

Ég átti tal um þetta mál við tvo menn ofan úr sveit alveg nýlega. Þeir fóru að spyrja mig um málið. Og ég verð að játa, að ég gat mjög lítið sagt um það. Annar maðurinn hafði litið svo á, eins og hv. þm. Mýr. kom að í upphafi ræðu sinnar, að þetta væri eitthvað sams konar eins og l., sem eru nýafgr. um orlof, og hafði lesið þetta lauslega yfir og hélt, sem eðlilegt var, að þetta fé eða þessi orlofsstyrkur væri til starfsfólks í sveit, vinnufólks og kaupafólks og þess háttar fólks, en ekki vinnuveitenda. Og hann hélt, að vinnuveitendur ættu að leggja eitthvað fram á móti þessum ríkisstyrk. En þetta frv. á ekkert skylt við l. um orlof, heldur er það óféleg tilraun til atkvæðakaupa. Hitt (l. um orlof) er beinlínis hækkun á kaupgjaldi starfsmanna með því skilyrði, að þeir noti það til þess að létta sér upp. Þetta frv. er aftur um ríkisstyrk til ferðalaga, sem á sem sagt ekkert skylt við orlofsfé. En einkennilegt var, að báðir þessir menn, sem ég talaði við, þeir höfðu hálfgerða skömm á þessu. Og ég er hræddur um, að það fari svo, að þetta slái alveg í baksegl, þannig að í staðinn fyrir að hafa einhver atkvæði upp úr þessu, þá muni það vekja andúð út um sveitir.

Ég tek ekki þátt í þessum leik. Og ég veit, að ég fæ einskis manns ámæli fyrir það, þó að ég greiði atkv. á móti þessu frv.