18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Rannsókn kjörbréfa

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég vænti þess, að þessar umr. séu brátt á enda. Málið hefur nú skýrzt svo, að ég þarf ekki að vera margorður. Ég vildi aðeins svara lítillega tveim þm., þeim hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. V.-Húnv. Það, sem ræður afstöðu þeirra, er það, að þeir trúa á vottorð Kristjáns Jenssonar sem heilagan sannleika. En þegar fram kemur vottorð frá konu einni í Ólafsvík, — vottorð, sem ég hef hvorki beðið um né keypt, eins og þeir hafa gefið í skyn, heldur fengið óbeðið, þá er það þessi kona, Sem segir ósatt að þeirra dómi, en rógberanum á að trúa. Það hafa þegar verið afsönnuð nokkur atriði í bréfinu, en ég hef ekki hirt um að afla mér vottorða vestan að til að afsanna það í heild, enda hef ég þegar krafizt sakamálarannsóknar. Um fyrsta atriði bréfsins er það að segja, að sönnur hafa verið færðar á, að það er uppspuni einn, og staðhæfingin um fundinn í Ólafsvík fær ekki heldur staðizt, því að ég var þá staddur í Stykkishólmi og gat því ekki verið á þessum stað. En þessum ha. þm. dettur ekki í hug að miða afstöðu sína við þessar staðreyndir, heldur gleypa við lygasögunum.

Þetta mál mun nú ganga sinn gang. Allir eru sammála um, að rannsókn eigi að fara fram, og ég hef þegar gert ráðstafanir af minni hálfu til þess, að svo muni verða. Og ég vona, að hv. kjörbréfan. sofni ekki á málinu. En þó að ég hafi ákveðið að láta rannsókn fram fara, felst ekki í því nein viðurkenning á því, að nokkuð sé satt í þessu bréfi. Það er uppspuni frá rótum, og það vil ég fá sannað.

Hv. þm. S.-Þ. hélt því fram, að Snæfellsnessýsla hefði verið unnin með fjármagni. Það er furðulegt að heyra slíka ásökun af munni manna, sem standa að stærsta verzlunarfyrirtæki landsins, SÍS, sem hefur haft öllum fyrirtækjum betri aðstöðu til að beita áhrifum sínum á pólitískum vettvangi. (JJ: Hefur Sambandið mútað?). Það voru ekki mín orð, en allir vita, að þetta verzlunarfyrirtæki hefur verið notað í pólitískum tilgangi (JJ: Sannanir!), meðal annars með styrk til útgáfu Tímans og birtingu rógsgreina í honum, sem fleytt hafa mörgum framsóknarmanni inn á þing. Mörgum kotbóndanum hefur þótt þröngt fyrir dyr um, þegar þessir einvaldsherrar sóttu þá heim. Þetta verzlunarfyrirtæki hefur ábyggilega haft sín stóru áhrif á úrslit kosninga í fjölmörgum héruðum á undanförnum árum. Ég ætla, að margir bændur kannist við einvaldsklærnar þar, þær eru ekki alltaf mjúkar, en mjúkt er hjalið, þegar lofað er gulli og grænum skógum fyrir kosningar. Ég hygg, að ekki þurfi að fara út fyrir Snæfellsnes til að finna að því dæmin, hvernig kaupfélagsvaldinu hefur verið beitt í kosningabaráttu, t.d. á s.l. vori. Ég er ekki að segja, að kaupfélögin hafi beinlínis notað mútur, en þau hafa notað hina sterku aðstöðu, sem þau hafa til áhrifa.

Hv. þm. S.-Þ. fór með nýjar slúðursögur. Nú var það svonefnt Ólafsvíkurball, sem átti að verða sjálfstæðismönnum til háðungar. Hann segir, að ég hafi farið þar með loddara og trúðleikara, og var að skilja svo, að hann ætti við hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh. með þessum nafngiftum. Hann talar um niðræðu um Bjarna Bjarnason, og sýsluskrifarinn hafi verið fenginn til að fara með níðvísur um Bjarna. Það má vera, að hv. þm. S.-Þ. þoli hvorki gys né gaman um sig, hann hefur þótzt þurfa aðstoðar hins opinbera að banna slíkt til að losna undan því, en svo báglega er ekki öllum farið. Ég get fullyrt, að í gáskavísum þeim, sem þm. átti við, er ekki gengið nærri eins langt í skopinu og tíðkast í „revium“ þeim, sem við eigum að venjast í Rvík og þykja ekki ósæmilegar. Þarna á að hafa verið mikil ölvun og samkomunni hleypt upp, og það telur þessi þm. Ólafsvíkingum helzt til sæmdar að hafa hleypt henni upp. Um þennan fund er satt bezt að segja, og ég þekki betur til hans en hv. þm. S.-Þ. Þar töluðu hæstv. atvmrh., ég og presturinn í Ólafsvík, hinar meinlausu gamanvísur var þar farið með. Enginn sást ölvaður. loks þegar leið að samkomuslitum, heyrðist hávaði frammi við dyr. Maður, sem þekktur var að því að hafa tvisvar áður verið sendur til að hleypa upp samkomum í sérstökum tilgangi, birtist nú með ófögrum látum og tókst að gera nokkur samkomuspjöll, enda var þá brátt slitið fundi. Þessi unglingur var sendur, — og ekki fyrsta sinni — af framsóknarmönnum, sem notuðu sér, hvernig hann er gerður, til að fremja þessi lúalegu samkomuspjöll. Og þetta athæfi á að vera Ólafsvíkingum helzt til sóma. Nei, það er aðeins fáeinum framsm. til verðugs sóma. Mæli ég það ekki til Bjarna Bjarnasonar, af honum hef ég ekki reynt neitt slíkt. Persónulega hafa kynni okkar verið hin beztu, þó að á greindi um málefni.

Ég minntist á, að Framsfl. ætlaði ekki að gera það endasleppt við Snæfellinga. Ég minnti á, hvernig hvert hagsmunamálið af öðru hefði verið drepið fyrir þeim 1934, þegar Framsfl. réð mestu á þingi, hafði vegamálastjóri lagt til, að 19 þús. kr. yrði varið til vegabóta á Snæfellsnesi, en stjórnin skar það niður í5 þús. Thor Thors bar fram till. um að hækka það upp í 19 þús. eins og ráðgert hafði verið, en hún var felld með atkv. hv. þm. S.-Þ., hv. þáverandi 2. þm. Árn. og annarra framsóknarmanna. Þá var einnig borin fram tillaga um að ábyrgjast lán fyrir rafveitu Stykkishólms. Með eins atkv. mun var till. felld, allir framsóknarmenn voru á móti, þar á meðal sömu tveir þm., sem ég nefndi, og sagðist hinn fyrrnefndi vilja gera allt, sem í hans valdi stæði til að hindra samþykkt hennar. Þetta er skjalfest í þingtíðindum. Það er sannanlegt, að um mörg ár var rekin hefndarpólitík gegn þessu kjördæmi fyrir að senda ekki framsóknarmann á þing.

Hv. þm. S.-Þ. segir, að ég hafi oft „farið í kjördæmi“, en þau ekki viljað mig. Það er nú eins og hann vill á málin líta. En ég er ákaflega hræddur um, að hann sé miður öfundsverður af því trausti, sem flokksmenn hans hafa borið til hans á síðari árum. Flokkurinn hefur ekki treyst sér til að setja hann aftur í ráðherrasæti, þó að ekki sé vafi um vilja hans sjálfs til þess, — ekki í forsætisráðherrasæti og ekki heldur í annað ráðherrasæti.

Ráðizt er á Sjálfstfl. fyrir það, að tregt hafi gengið að fullnægja síldarmjölspöntunum í haust og þó enn heiftarlegar fyrir það, að nokkrir bændur í Kolbeinsstaða- og Eyjahreppi hafi samt fengið síldarmjöl. Samkvæmnin í þessu er eins og við er að búast og hæfir tilganginum. Ég get búizt við, að skrif „Tímans“ um síldarmjölsleysið hafi getað ýtt verulega undir bændur að panta mjöl frá því firma, sem þeir höfðu áður skipt nokkuð við og kynnzt að góðu. Mætti því að einhverju leyti þakka Framsfl. þessar eftirtöldu mjölsendingar.

Ég held, að þetta mál liggi ljóst fyrir. Ekki hefur verið kært yfir neinum misfellum, hið eina tortryggilega er þetta bréf, sem á dularfullan hátt hefur komið upp hjá hv. þm. V.-Húnv. og hann tekið að sér að bera fram fyrir hið háa Alþingi. Hann nýtur þinghelgi, svo að hann verður ekki látinn sæta ábyrgð fyrir sína framkomu. En ég vænti þess, að þegar málið hefur verið lesið niður í kjölinn, fái hann sinn sóma af því. Síðustu daga hefur verið leitazt fyrir um samstjórn allra flokka. Framkoma sú, sem þessi þm. virðist frumkvöðull að, er þá vægast sagt óheppileg, og því er verr, að svo lítur út sem hún sýni hinn sanna hug og heilindi Framsfl. til samstarfs, — með því að hefja nú slíka rógsherferð. Þeir framsóknarmenn, sem greiða atkv. með frestun, baka sér þunga ábyrgð.