12.02.1943
Neðri deild: 58. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2805)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Ég get ekki látið hjá líða að fara um þetta mál nokkrum orðum. Það hefur komið í ljós við umr. hér í sambandi við þetta mál, að svo margir hv. þm. eru hér, sem ekki þekkja til atvinnu- og starfshátta sveitafólksins, að furðu gegnir. Og þegar samþ. hefur verið, að verkafólk fái fullt orlof og full laun, á meðan það er í því, þá er því haldið fram, að bændur og búalið, önnur fjölmennasta verkamannastétt landsins, eigi ekki rétt á því að fá fáeina aura í sama skyni. Þá er komið fram með ýmis mótmæli og rök, sem eru svo miklar firrur, að ég hef aldrei heyrt aðrar eins.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að orlof væri einkum nauðsynlegt fólki, sem hefði innisetur. En þetta fólk er þegar búið að tryggja sér orlof og fullt kaup, á meðan það er í því. Þeir, sem hafa hagnað af þessu, eru verkamenn og eyrarvinnumenn. Þeir hafa ekkert fast sumarleyfi haft.

Hv. 3. þm. Reykv. segir, að sveitafólkið sé sjálfstæðir atvinnurekendur, sem geti verið sjálfráðir um að taka sér frí. En geta verkamenn ekki tekið sér frí líka? Nú er það ákveðið, að þeir séu á fullu kaupi, á meðan þeir eru í fríi sínu. En sannleikurinn er sá, að sveitafólkið má aldrei vera að því að fara í orlofsferð. Sveitavinnan má aldrei falla niður, en sökum fólksfæðar mundi hún hljóta að gera það, ef flest fólkið færi án þess að hægt væri að fá hjálp á meðan. Sveitirnar vantar starfskrafta til þess, og er sveitafólkið eina fólkið, sem svo er ástatt fyrir.

Ég vil svo að lokum lýsa furðu minni á því, hve margir þeir hv. þm. eru, sem ekki þekkja til atvinnuhátta okkar. Þeir virðast varla þekkja það, sem fram fer í kringum þá, ekki kannast við aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. En væntanlega gefst tækifæri til þess að ræða þetta mál nánar síðar.