25.02.1943
Neðri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2810)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Einar Olgeirsson:

Ég hef flutt brtt. við frv. þetta ásamt hv. þm. Siglf. og hv. 11. landsk. Þær fara fram á, að í stað þess, að frv. þetta sé miðað við sveitafólk almennt, þá séu húsmæðurnar teknar út úr og miðað við þær. Ég skal nú gera nánari grein fyrir þeim.

Tilefni þessa frv. er orlofsfrv., sem nú er orðið að l. Með þeim l. voru verkamönnum veitt réttindi og kjarabætur. Ef á að halda þessu verki áfram, þá eiga þessar hagsbætur næst að falla í skaut þeim aðila, sem ásamt verkamanninum ber þyngstar byrðar í þjóðfélaginu. Ég býst við, að allir viti um erfiðleika sveitafólksins, en það er engum vafa undirorpið, að þeir mæða þó mest á húsmóðurinni. Og þótt kjör húsmóðurinnar í sveitunum séu sérstaklega slæm, þá er einnig hið sama að segja um fátækar konur í bæjunum. Það er því rökrétt framhald á því verki, sem hafið var með orlofsfrv., að stíga næsta skrefið þar, sem þörfin er mest. — Hvaða aðila í sveitunum ætti fremur að hlynna að en húsmæðrunum? Ég álít, að þessi styrkur kæmi að meira gagni þeim til handa en bændunum. Ég veit ekki betur en heimild sé í fjárl. til að veita fé til kynnisferða bænda, og þótt sú upphæð, sem nú er veitt í þessu skyni, sé lág, þá er vandalítið að hækka hana. Til þess þarf engin sérstök lög. Auk þess hefur Búnaðarfélagið möguleika á að kynna bændum búnaðarframkvæmdir í öðrum héruðum, og ekki er rétt að miða þetta framlag við slíkt. Hér er um beint mannúðar- og réttlætismál að ræða, en ekki að kynna fólki búnaðarframkvæmdir fyrir þetta fé. Það er því engin ástæða til að tengja þetta neitt saman.

Þessi styrkur á fyrst og fremst að verða til þess, að þreytt fólk geti létt sér upp, þótt ekkert sé því til fyrirstöðu, að það geti lært ýmislegt um leið. En að gert sé ráð fyrir, að það „stúderi“ búnaðarframkvæmdir, það er allt annars eðlis, það er sérstakt mál út af fyrir sig.

Það, sem um er að ræða, er að halda áfram því verki, sem hafið var með orlofsfrv., því verki að styð ja þá þrælkuðu til að afla sér hvíldar og upplyftingar. Og hvaða hv. þm. vill fullyrða, að nokkrir hafi meiri þrældóm og minna frí en húsmæður?

Ég held því fram, að stefna okkar í þessu máli sé réttlát og í samræmi við orlofsfrv. Þetta á fyrst og fremst að vera mannúðarmál. Við leggjum til, að 100 þúsund krónum sé varið til styrktar í þessu skyni. Af því greiðist 2/3 til sveita og kauptúna, en 1/3 til kaupstaða, þó með því skilyrði, að eins hátt framlag komi á móti annars staðar að, t.d. frá bæjarfélögum. Þetta þótti okkur ,sanngjarnt. Ef bæjarfélögin brygðust, þá væru möguleikar á að afla fjárins á annan hátt, t.d. með samkomum og skemmtunum, er kvenfélögin gengjust fyrir. Hins vegar þótti okkur ekki rétt að gera þessar kröfur til sveitanna, þótt ekkert væri vitanlega á móti fjárframlagi þar. Rétt þótti að greiða styrkinn til kvenfélaga, með það fyrir augum að vekja áhuga þeirra á málum þessum og lofa þeim, er nota eiga féð, að hafa sem mest með það að gera. Þá er gert ráð fyrir, að greidd verði full verðlagsuppbót á upphæð þessa. Með núgildandi vísitölu yrði öll upphæðin þá um 260 þús. kr. Landbn. hefur lagt til, að sveitastyrkirnir yrðu um 200 þús., aftur á móti var reiknað með upphæð í Ed., er næmi 50–60 þús. Eftir okkar till. yrði þessi upphæð um 175 þús., svo að munurinn er ekki mikill, miðað við till. landbn., og ekkert því til fyrir stöðu, að upphæðin yrði hækkuð.

Hvað viðvíkur till. n. um sérstakt gjald á kjöt og mjólk til fjáröflunar í þessu skyni, þá álít ég það óheppilega aðferð, sem ekki ætti að viðhafa. Með því er lagður óbeinn tollur á neytendurna, og er það, á móti yfirlýstri stefnu þriggja þingflokkanna. Þar að auki eykur það dýrtíðina að skatta afurðir þannig. Þó skal ég viðurkenna, að það nemur litlu. Ég álít eðlilegast, að féð væri tekið beint úr ríkissjóði og aflað í hann með beinum sköttum.

Ýmsum kann að virðast óþarfi að binda þetta fjárframlag við húsmæðurnar. En ég verð að segja það, að til allrar hamingju getur mestur hluti bænda ferðazt eitthvað og lyft sér upp á fundum og mannamótum, þó að konurnar séu aftur á móti fjötraðar við heimilin. Veit ég, að þær muni eiga vont með að taka sig upp, en það má ekki standa í vegi fyrir fríi þeirra. Einnig er mér kunnugt um, að mar gar konur hafa átt heima hér í bænum áratugum saman, en hafa þó aldrei komið inn fyrir Elliðaár.

Fyrir tilstilli mæðrastyrksnefndar hafa fátækar konur notið nokkurrar hvíldar að Laugarvatni undanfarin ár. Hjá flestum þessum konum hefur þetta orðið ógleymanleg endurminning.

Þó hafa fæstir gert sér í hugarlund, hvað þetta þýðir.

Ég vildi nefna þetta með tilliti til þess, að það er mikið talað um, að breyta þurfi bæjamenningu okkar og tengja hana meira landinu og „tradition“ þess. Það ætti þá fyrst að stuðla að því sem mest, að fólkið gæti séð sjálft landið. Auk þess álit ég, að þessar kynnisferðir mundu kynna húsmæðurnar innbyrðis, stuðla að gagnkvæmum kynnum þeirra í sveit og kaupstað. Ég vil því leggja áherzlu á, að hv. þm. íhugi það vel, hvort ekki væri sanngjarnt að veita húsmæðrunum þessi réttindi.

Hvað viðvíkur kynnisferðum bænda, þá er hægt að veita meira fé í fjárl. til þeirra og auka styrkinn frá Búnaðarfélaginu. Ég álít því, að með brtt. okkar sé stigið réttlátasta sporið til áframhalds í þessum efnum.