25.02.1943
Neðri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (2811)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Emil Jónsson:

Við 2. umr. þetta máls gat ég þess, að ég hefði áskilið mér rétt til þess í landbúnaðarnefnd að fylgja breytingartillögum, sem fram kynnu að koma við þetta mál. Ástæðan er sú, að ég var ekki í verulegum atriðum ánægður með þetta frv., eins og það lá fyrir. Í fyrsta lagi fannst mér framlagið svo lágt, að tæplega væri hægt að vænta árangurs. Í öðru lagi var ég því mótfallinn, að framlagið til þess að standa straum af kostnaðinum við þessar ferðir skyldi greiðast úr ríkissjóði, og í þriðja lagi var málið alveg óundirbúið, þegar því var kastað út í þingið sem hliðstæðu við orlofsfrv., sem var mjög vel undirbúið. Nú hefur tveimur þessum atriðum verið breytt. Framlagið hefur verið hækkað, eins og hv. frsm. landbn. hefur skýrt frá, þannig að nú munu um 200 þús. kr. ganga til þess árlega, og í öðru lagi hefur það verið ákveðið, að féð skuli tekið á svipaðan hátt og orlofsféð, þ.e. sem álag á vinnu þeirra, sem eiga að njóta þessa fjár.

Hv. 2. þm. Reykv. gat þess þó, að meiri hluti Alþ. mundi vera mótfallinn óbeinum sköttum, og það er rétt. En ég tel þetta hafa svo lítil áhrif sem óbeinn skattur, að þess vegna sé alveg óhætt að vera með þessu. Hér er aðeins um að ræða, 1/2% af framleiðslukostnaðarverði mjólkur og kjöts, en aðrar vörur eru ekki teknar með.

Ég tel, að með þessu sé tveimur fyrstu aths., sem ég hafði að gera við þetta frv., mætt þannig, að ég tel viðunandi. Hins vegar er málið mjög illa undirbúið, eins og sjá má á því, að landbn. hefur orðið sammála um að fella niður alla 3. gr. frv. og setja 8 nýjar gr. í staðinn. Það er því varla hægt að umsnúa einu máli meira en þarna hefur verið gert.

Þessi undirbúningur er mjög ólíkur þeim, sem orlofsfrv. fékk, þar sem það var undirbúið af fimm manna mþn., sem var skipuð fulltrúum atvinnurekenda og verkamanna og stjórnskipuðum oddamanni. Þessi mþn. starfaði í heilt ár eða meira og skilaði niðurstöðum á þann veg, að nálega engum stafkrók var breytt í frv., enda hafði n. lagt til grundvallar hliðstæð lög hjá erlendum þjóðum og samræmt þau íslenzkum staðháttum.

Hér í þessu frv., eins og það liggur nú fyrir, eru engar frekari ákvarðanir teknar um það, hvernig þessu fé skuli útbýtt, heldur komizt yfir þann vanda með því að fela Búnaðarfélagi Íslands að skipta þessu fé eftir reglugerð, er ráðh. setur. En á hvern hátt þessi reglugerð verður og hvernig skipting fjárins verður að öðru leyti, er hér á engan hátt ákveðið í frv. Það er að vísu tekið upp í frv. eitt ákvæði, sem ég tel þarft og rétt, sem sé, að féð megi nota, auk þess sem það sé notað til kynnisferða, til þess að greiða fátækum einyrkjum, sem ekki eiga heimangengt, nauðsynlega aðstoð við heimastörfin, meðan á kynnisferð stendur. Þetta er þarft, og þetta er líka eina ákvæðið, sem sett er í frv, um það, hvernig með þetta fé skuli fara, annars er allt óákveðið um meðferð þess.

En eins og ég sagði, hefur frv. að mínu viti fengið mjög verulega búningsbót, frá því að það kom hér til hv. d. fyrst. Og þess vegna stend ég að því með landbn. að flytja þessar brtt., eins og þær liggja fyrir á þskj. 446.

Mér er sagt, að þm. V.-Sk. (SvbH) hafi sent mér hnútur nokkrar, þegar ég var fjarstaddur og gat ekki verið hér, vegna afstöðu minnar og orða við 2. umr. þessa máls. Ég skal ekki karpa við þennan hv. þm., og kemur mér ekkert á óvart, þótt hann hafi sent mér hnútur, því að hann er vanur því, ef ekki er skilyrðislaust gengið inn á öfgarnar, sem hann og flokkur hans kunna fram að bera í þessu máli eða öðrum svipuðum. En ég tel, að málstaður minn hafi nokkuð styrkzt með því, að frv. hefur verið snúið nálega alveg við, og það sýnir betur en nokkuð annað, að ekki var hægt að samþ. það eins og það lá fyrir.

Viðvíkjandi því, sem 2. þm. Reykv. (EOl) sagði um þetta mál, þá viðurkenni ég, að hér er fyrst og fremst um mannúðarmál að ræða, og á því fyrst að koma til álita að styrkja þá, sem mest hafa þörf til þess. Og þá koma þar í fyrsta lagi til álita húsmæðurnar, eins og hann vildi líka vera láta. En ég tel, að með orlofsfrv., sem orðið er að l., hafi nokkuð verið séð fyrir þessu, að því er tekur til húsmæðra í kaupstöðum, því að vitanlega fylgja þær mönnum sínum, þegar það fé kemur þeim til góða; út frá því er gengið. Og á sama hátt hygg ég, að húsmæður í sveitum muni njóta þessa fjár með mönnum sínum, og ekki síður heldur en hinar. Ég tel því ekki ástæðu til þess að binda þessa fjárveitingu eða þessi l. eins mikið og hv. þm. vill vera láta við það, að húsmæðurnar njóti þess, því að ég tel, að þær muni gera það, eins og orlofslögin eru og þetta frv. gerir ráð fyrir, eftir því sem ástæður og efni standa til.

Ég þarf svo ekki að fara frekari orðum um þetta. Ég mun standa með brtt. landbn. eins og þær liggja fyrir, vegna þess að þær fara allar í þá átt, sem ég hafði hugsað mér að gera brtt. um, eins og málið lá fyrir hér fyrst.