25.02.1943
Neðri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Jón Pálmason:

Þegar þetta frv. kom frá Ed. og til landbn., þá vildi n. ekki bregða fæti fyrir málið, en nm. áskildu sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við frv. Flestir nm. voru óánægðir með frv. eins og það var, og það vor í fyrsta lagi af því, að þetta er ríkisstyrkur. Í öðru lagi af því, að þetta er svo smá upphæð, að það var eins og verið væri að gera gys að sveitafólkinu, eftir að búið var að safna. orlofsfrv., sem hafði þá nýlega gengið í gegnum þingið. Að ætla sér að samþ. frv. þar sem látnar voru af hendi 10 kr. til hvers heimilis, var þýðingarlítið mál, auk þess sem ríkisstyrkur í þessu skyni var ógeðfelld leið. En í því formi, sem frv. er orðið nú samkv. till. landbn., held ég, að allir nm. séu ánægðir með það, jafnvel þó að segja megi, að þetta sé mjög lítil upphæð, þegar hún er borin saman við það, sem kemur helzt til samanburðar.

Nú er það svo í sveitum landsins, að það er ekki það, sem á veltur, hvort fólkið geti kostað til 10 eða 20 kr. til þess að lyfta sér upp, heldur hitt, að sveitafólkið hefur engan tíma til þess að hverfa frá heimilunum, þó að um skamma hríð sé. Þess vegna er það öllu þýðingarmeira atriði, sem er tekið fram í 6. lið brtt. okkar, að það sé heimilt að styrkja þá, sem örðugast eiga með að afla sér vinnukrafts.

En það var ekki þetta, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, því að hv. frsm. hefur gert fyrir þessu glögga grein, heldur hitt, að mér finnst till. og ummæli, sem fram komu hjá hv. 2. þm. Reykv. vera þannig, að það sé full ástæða til þess að víkja frekar að því. Þessi hv. þm. vill færa þetta mál inn á það svið, að þessi styrkur nái aðeins til húsmæðra í sveitum og kaupstöðum og sé ríkisstyrkur. Eins og tekið hefur verið fram, nýtur allt fólk í kaupstöðum landsins orlofsfjár, jafnt húsmæður sem karlmenn, og þess má geta, að allt fastlaunafólk í kaupstöðum hefur frí einhvern ákveðinn tíma með fullu kaupi. Ég bendi á þetta til. þess að sýna fram á, að ekki er ástæða til þess að fara inn á þessa leið. Það gefur augaleið, að þessi upphæð, sem veitt yrði í þessu skyni til sveitafólksins, þarf að ganga jafnt yfir alla, bæði karla sem konur, ef það hefur aðstöðu til þess að fara slíkar ferðir einhvern tíma á árinu. Það er gert ráð fyrir því, að Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsamböndin komi sér saman um að skipta þessu fé á milli héraðanna.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um konurnar í kaupstöðum landsins, þá er það út af fyrir sig rétt hjá honum, að til eru konur, sem hvorki eru giftar verkamönnum né fastlaunamönnum og hafa örðuga aðstöðu, en það verður að hafa einhver önnur ráð til þess að rétta þeim hjálparhönd, heldur en þau að taka af því fé, sem ætlað er í þessu skyni handa sveitafólkinu, og færa það yfir til þeirra. Ég held þess vegna, að hv. þm. ættu að geta sætt sig við það að afgreiða þessar brtt. landbn., eins og þær liggja fyrir, en láta allar aðrar brtt. eiga sig. Þeir, sem voru orlofsfrv. fylgjandi, ættu sannarlega ekki að sjá ofsjónum yfir því, þó að ætlazt sé til, að þessi smáupphæð verði veitt í þessu skyni til sveitafólksins, því að þar er ólíku saman að jafna, eins og hv. þm. Mýr. benti á, þar sem orlofsfé til verkamanna í Rvík einni mun verða um 3 millj. kr. Þar að auki er þess að geta, að það fé, sem fastlaunafólk nýtur í þessu skyni, er engin smáupphæð. Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, en vil vænta þess, að eftir að atkvgr. hefur farið fram, þurfi ekki að verða meiri ágreiningur út af þessu máli, og vona, að menn sætti sig við það eins og landbn. hefur gengið frá því.