01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Eiríkur Einarsson:

Það hefur beinlínis komið fram í ræðum sumra manna, sem til máls hafa tekið, að þeir álíti það óvenjulega röskun á venjulegum gangi mála að taka þetta frv. upp sem nýtt mál, heldur eigi að leyfa því, þó að það sé dálítið mikið breytt frá Nd., að útkljást við eina umr. Ég verð að segja, að ef hér væri ekki um annað að ræða en hvernig ætti að koma fyrir kynnisferðum sveitafólks, hvert ætti að fara, hvernig fólkið ætti að vera klætt, hvort fara ætti í bílum eða á hestum, hvort það ætti að fá á ferðapelann o.s.frv., þá væri ekki mikill vandi. En þetta er ekki mergurinn málsins, heldur hvernig á að veita sveitafólkinu nauðsynlegt fé til að hreyfa sig að sumarlagi. Þegar málið er krufið til mergjar, þá er þetta eina atriðið, sem skiptir máli og getur valdið verulegum ágreiningi: Á það að koma frá ríkissjóði beint eða annars staðar að? Það er meginatriðið. Ég vil segja, að þetta atriði hafi algerlega tekið stakkaskiptum í meðferð málsins milli d. Ég legg áherzlu á þetta og segi alveg tæpitungulaust, að vegna þessarar breyt. sé hér um nýtt mál að r æða. Með þeirri breyt., sem ger ð hefur verið í Nd., er lagður á óvenjulegan hátt sérstakur skattur á tvær vörutegundir, þ.e.a.s. söluverðið til neytenda. Ég vil taka fram, að það þyrfti ekki mikið að breytast frá því, sem nú er, að það þætti jafnathugavert og ísjárvert fyrir framleiðendur og neytendur þessara vara að skeyta þessu aukagjaldi við. Það er vitanlegt, að á hverjum tíma, sem þrengist fyrir dyrum hjá almenningi í landinu, þá er það sameiginleg nauðsyn fyrir framleiðendur og neytendur að stilla verðlaginu þannig í hóf og það horf, að framleiðendur fái allt vöruverðið í sínar hendur, sem er umfram þann óhjákvæmilega álagningarkostnað, og á sama hátt er það nauðsyn fyrir neytendur, að ekkert sé lagt á vöruna fram yfir þurftarlaun framleiðenda nema það, sem er óhjákvæmilegur kostnaður. Þess vegna veit ég ekki, hversu þakksamlega það yrði þegið, ef Alþ. færi að gera gjaldskylda þá, sem hér eiga hlut að máli og tel ekki þarft að gana út í það. Ég tel þess vegna ástæðu til og í rauninni nauðsynlegt að sýna Nd. fram á, að þessi d. liti á málið sem nýtt mál, og far í svo sem fara vill með það.