01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2831)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Hermann Jónasson:

Hv. 6. þm. Reykv. minntist á það, sem okkur hefur verið kennt um það, hvernig kveða skuli upp úrskurði, að fara ætti eftir öllum málavöxtum og gera það, sem rétt væri. Þetta er að vísu alveg rétt, en út af því hefur stundum viljað bregða hér á þingi, enda fer þingið ekki með dómarastörf að jafnaði, og það hlýtur því að hafa nokkur áhrif um afstöðu manna til mála, hvað þeir vilja sjálfir um þau. Ég veit að vísu ekki, hvað liggur á bak við hina óvenjulegu formfestu í þessu máli hér í hv. d., en tel rétt að láta deiluna niður falla og láta reynsluna skera úr því, hvort ætlun þessara manna er sú að eyða málinu, eins og stundum var gert á Alþ. hinu forna, þó að þeir látist vera því hlynntir.