01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2833)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Hermann Jónasson:

Út af áminningarræðu hins prestlega heilagleika og hinnar guðfræðilegu hreinskilni vil ég aðeins segja örfá orð. Sá hv. þm., sem síðast talaði, hneykslaðist mjög á því, að ég væri að gera þeim getsakir, en ég tók það fram, að það væri bara ágizkun mín, að fyrir þeim vekti að eyða málinu, og það kemur væntanlega í ljós við afgreiðslu málsins, hvort heldur er. En engum getur þótt undarlegt, þó að mönnum detti í hug, að eitthvað slíkt búi hér á bak við.