01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Gísli Jónsson:

Ég vil aðeins benda hv. þm. Str. á það, að það gegnir allt öðru máli um þetta frv. en það frv., sem ég flutti hér sem brtt. við l., sem þegar voru fyrir í landinu, þar sem engu var breytt öðru en því, að felldur var niður mikill hluti af brtt. mínum, en ekkert nýtt sett inn í frv. Þetta er allt annað, og furðar mig á, að jafnskýr maður og hv. þm. Str. skuli bera slík rök fram fyrir hv. Ed. Það er eins og hann væri að tala við Strandamenn á þingmálafundi. Ég skal líka benda honum á; að ég átti fyrstur till. um kynnisferðir sveitafólks og fékk hv. þm. Str. síðan nauðugan til að setja nafn sitt á frv. Honum er vel ljóst, að hann hefði aldrei haft tíma til að hugsa um þetta mál. Við urðum beinlínis að neyða hann til að vera meðflm. þessa máls. Mér er óhætt að segja, að ég er meiri fylgjandi málsins en hv. þm. Str., en ég met stjskr. Íslands meira en svo, að ég vilji þola það, að ekki sé farið með málið eftir því, sem þingsköp krefjast.