07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég tel það mjög athugavert, ef taka á upp þá reglu, að forseti hafi úrskurðarrétt undir svona kringumstæðum. Minni hl. verður að hafa tryggingu fyrir því, að meiri hl. misnoti ekki aðstöðu sína gagnvart honum.

Þegar ákveðið væri, að mál þetta skyldi skoðast sem nýtt, skyldi það gert með þeim hætti, að forseti leitaði álits d. um það, hvort skoða ætti það sem nýtt eða ekki. Kvæði forseti upp þann úrskurð, að málið sæti meðferð sem nýtt, yrði svo að vera. Mál þetta hefur sætt löglegri meðferð. Þess vegna er það fráleitt, sem fram hefur komið, að málið sé þegar afgr. sem lög.

Það er ekki hægt með neinum rökum að úrskurða till. á þskj. 591 og 611 svo þungar á metunum sem forseti vill vera láta. Það er víst, að daglega eru bornar fram till., sem fela í sér gagngerðari breyt. en þessar, sbr. frv. ríkisstj. Læt ég mér ekki til hugar koma, að forseti felli þann dóm. Honum ber að fella skýlausan úrskurð og að láta álit d. ekki hafa áhrif á hann.