07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Brynjólfur Bjarnason:

Mér virðist hv. þm., sem hér hafa talað, hafa sumir gleymt því, hvers konar aðferð var höfð til þess að skera úr því, hvort málið væri nýtt mál eða ekki, þegar það kom hér fyrir þessa hv. þd. úr hv. Nd. Hæstv. forseti færði fram mjög ýtarleg rök fyrir því, að hér væri um matsatriði að ræða. Og hann nefndi nokkur hliðstæð fordæmi þess, að þetta mál gæti talizt nýtt mál. Hann nefndi dæmi þess, að í slíkum tilfellum sem þessu hafi mál verið talin ný mál og þá fengið þá meðferð, sem ný mál fá hér í hv. d., þ.e.a.s., verið látin ganga gegnum þrjár umr. og síðan vísað til hv. Nd. Og eins hitt, að í slíkum tilfellum hefur úrskurður fallið á þá lund, að ekki skyldi skoða mál, sem hliðstætt þessu stóð á um, sem nýtt mál, enda þótt hliðstæðar gerbreytingar hefðu verið gerðar, þannig að úrskurðað hefði þá verið, að mál skyldu fá venjulega afgreiðslu í d. eins og hvert annað mál. M.ö.o., það, sem hér þurfti að gera, var ekki annað en að meta það, hvort málið skyldi teljast nýtt mál eða ekki. Og þá getur vitanlega ýmislegt komið til greina við það mat.

Mér virðist, að í þessu tilfelli hefði getað orkað tvímælis um það, að hér væri algerlega um nýtt mál að ræða, vegna þess að eins og málið kom frá hv. Nd. var það í átta greinum, sem komu í staðinn fyrir þrjár greinar frv., eins og það fór hér úr hv. Ed. Og þessar átta greinar fólu í sér alveg ný ákvæði og gersamlega ólík þeim, sem voru í frv., eins og það kom frá Ed. áður.

Hins vegar gegnir nokkuð öðru máli um þessar brtt., sem hér liggja fyrir. Að vísu fela þær í sér gerbreytingar á frv. frá því eins og það kom úr hv. Nd. En samt sem áður gegnir hér öðru máli, þar sem hluti úr frv. er í brtt. tekinn upp og honum breytt nokkuð, þ.e.a.s., að í staðinn fyrir þessar átta gr. komi þrjár gr. samkv. brtt. minni á þskj. 611. Og sama máli gegnir að þessu leyti gagnvart brtt. frá minni hl. landbn. Og það eru ótal fordæmi fyrir því, að slíkar breyt. hafi verið gerðar á frv., án þess að það væri skoðað sem nýtt mál. Það kemur að mínu áliti þannig vel til greina að meta þessar brtt. allt öðruvísi heldur en þær breyt., sem komið hafa fram á frv. og gert það eins og það er nú komið frá hv. Nd.

Það hefur komið hér fram í umr., bæði hjá hv. 3. landsk. þm. (HG) og hv. 1. þm. S.-M. (lngP), að hæstv. for seta bæri að fella úrskurð í þessu máli án þess að leita álits hv. d. í því sambandi. Og mér skildist, að þessir hv. þm. báðir væru þeirrar skoðunar, að það hefði forseta verið rangt að gera. En þessir hv. þm. gæta ekki að því, að hér er um úrskurð að ræða, sem byggist á mati. Það eru ekki nein skýr fyrirmæli til í þingsköpum, sem geta sagt af eða á um það, hvernig úrskurður eigi að falla í málinu. Það verður þess vegna að byggjast á mati, sem getur verið undir ýmsu komið. Og í slíkum kringumstæðum sem þessum virðist mér það mat eiga að vera á valdi hv. d. og hæstv. forseti fari svo eftir því, hvað d. telur rétt vera í málinu, og að engin önnur meðferð eigi að koma til greina og í engri annarri málsmeðferð sé nein trygging. Hv. 3. landsk. þm. spurði, hvar væri tryggingin fyrir minni hl. um það, að meiri hl. misnotaði ekki aðstöðu sína gagnvart minni hl. og færi með rangindi gagnvart honum, svo framarlega sem forseti tæki upp þá reglu að láta d. fella þessa úrskurði. Ég vil spyrja hv. 3. landsk. þm.: Hvar er tryggingin fyrir meiri og minni hl. deilda fyrir því, að forseti misnoti ekki vald sitt gagnvart þeim? Við höfum dæmi um það hér á Alþ., að forseti hefur mjög freklega notað úrskurðarvald sitt gagnvart vissum hluta hv. þingmanna. Þannig hefur eldri reynsla sýnt, að engin sérstök trygging er í því, að úrskurðarvaldið sé allt í höndum forseta. Hins vegar er það þannig samkv. þingsköpum, að forsetar eiga að úrskurða, hvað rétt sé samkvæmt þingsköpum. En þegar ekki eru skýr ákvæði í þingsköpum um atriði, sem úrskurða þarf um, heldur er það matsatriði, þá á það að vera á valdi d. að ákveða, hvort hún lítur svo á, eins og í þessu tilfelli er, hvort eitthvert mál sé nýtt mál eða ekki. Og ég tel, sem sagt, í þessu tilfelli alveg hárrétt, að meiri hl. hv. þd. sé látinn skera úr um þetta.