07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2876)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Eins og hv. sessunautur minn sagði, hafa orðið langar umr. um form þessa máls. En nú sný ég mér að efni frv. Það hefur verið mikið rætt um það, hvernig þetta mál liti út. Eins og það var lagt hér fyrir þessa hv. d. nú við 1. umr., þá höfum við í minni hl. landbn., ég og hv. 1. þm. N.-M. (PHerm) komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að breyta frv. lítils háttar, þannig að 4. gr. frv. félli niður, og svo væri 5. gr. breytt í samræmi við það. Ástæðan til þessara brtt. okkar þessara tveggja nm. var sú, að talað var um, að með ákvæðum 4. gr. væri þetta gjald í raun og veru lagt á neytendur varanna. En nú, með því að fella 4. gr. burt, þá er það alls ekki gert, heldur er frv. þannig, að það er aðeins farið fram á að fá lögfesting á þessu gjaldi af framleiðsluvörum bænda, sem þeim er svo lögheimilað að innheimta á þennan hátt, hliðstætt því, sem gjöld hafa verið innheimt, sem ekki hafa runnið til ríkissjóðs, heldur t.d. til fiskimálan. o.þ.h. á þennan hátt er þessu fyrir komið í brtt. Og ef hið nýja dýrtíðarfrv. nær fram að ganga, þá þarf ekki að kvarta um það, að hér í þessu frv. sé verið að skattleggja neytendur, ef brtt. þessar verða samþ. Því að nú virðist það vera þannig, að færa eigi niður verð mjólkur og kjöts. Svo það er vissa fyrir því, að þessi útgjöld koma alls ekki á neytendur samkv. brtt. okkar.

Ég tel ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta mál. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess fyrir hv. d. að vef jast fyrir því, að bændur fái að skapa sér sjóð, þannig að þeir gætu lagt fram af sínu eigin fé nokkuð sér til orlofs eða ánægjulegs ferðalags. Því að hér er ekki verið á neinn hátt að leita á náðir ríkissjóðs, heldur eru það framleiðendur sjálfir, sem eftir brtt. okkar greiða þetta fé. Þess vegna kemur ekki til mála, að hv. þd. fari að leggja stein í götu þess, að þetta verði lögfest.