07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (2889)

174. mál, skipun læknishéraða

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Skipulag læknishéraða á Snæfellsnesi er þannig, að því er skipt í tvö læknishéruð: Stykkishólmslæknishérað og Ólafsvíkurlæknishérað, auk þess sem tveir syðstu hrepparnir tilheyra Borgarneshéraði. Læknarnir sitja í Stykkishólmi og Ólafsvík, sem sé báðir norðan við fjallgarðinn. Þau fjölmennu héruð, sem liggja sunnan fjallgarðsins, hafa engan lækni, en þaðan er erfið leið og torsótt, einkanlega á vetrum, norður yfir fjöllin. Það hefur lengi verið ósk manna á Snæfellsnesi sunnanverðu að fá stofnað þar sérstakt læknishérað, og hafa verið samþ. um það ýmsar ályktanir, m.a. sú, sem prentuð er í grg. fyrir frv. þessu.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þessa máls. Hún kemur fram í grg. Í frv. er gert ráð fyrir, að hið nýja læknishérað nái yfir Kolbeinsstaðahrepp og Eyjahrepp, sem. nú eru í Borgarnesshéraði, Staðarsveit og Breiðavíkurhrepp, sem nú tilheyra Ólafsvíkurhéraði, og svo Miklaholtshrepp, en hann heyrir nú undir Stykkishólmshérað. Slíkt hérað mundi liggja vel við samgöngum. Þar yrði ekki yfir neinn fjallgarð að fara.

Hér er ekki farið fram á stofnun læknishéraðs, sem sé fámennara en mörg læknishéruð í landinu eru. Það eru nú í landinu 13 læknishéruð, sem hafa aðeins rúmlega 800 íbúa, en þetta hérað hefur tæplega 1000 íbúa.

Ég held það sé ekki ástæða til að taka upp í frv. nein ákvæði um laun. Þau eru ákveðin með l. og mundu í þessu tilfelli verða í ákveðnu hlutfalli við það, sem þau eru annars staðar. — Ég þarf þá ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vil mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og til allshn.